Í kjölfar nokkurrar umræðu á opinberum vettvangi um áreiðanleika gagna Hagstofu Íslands og að því er virðist tíðum leiðréttingum, hefur stofnunin svarað gagnrýni. Á það hefur verið bent að bæði greiningardeildir banka sem og aðilar innan ráðuneyta hafi bent á óáreiðanleika gagnanna.
Í svörum til Morgunblaðsins segir Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri samskiptasviðs Hagstofunnar, að gögn stofnunarinnar séu metin mjög áreiðanleg og að þau séu reglulega rýnd og sannprófuð.
„Það er á ábyrgð Hagstofunnar að rýna og sannprófa gögn, niðurstöður og aðferðafræði,“ segir Ólafur og bætir við að slík rýni sé hluti af reglubundnu starfi stofnunarinnar. Hann bendir á að Hagstofan fylgi meginreglum opinberrar hagskýrslugerðar og að Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, framkvæmi einnig ytra gæðamat á gögnum Hagstofunnar.
Aðspurður hvort athugasemdir hafi borist frá opinberum stofnunum, ráðuneytum eða Seðlabanka Íslands um óáreiðanleika gagna, segir Ólafur að Hagstofan eigi í miklu samstarfi við innlenda og erlenda aðila um stöðugar endurbætur á hagtölugerð. „Vinna við að auka gæði gagna er sífellt í gangi og lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar,“ segir hann.
Þjóðhagsreikningar, sem oft eru í brennidepli, eru að sögn Hagstofunnar alltaf háðir ákveðinni óvissu. Sú óvissa getur verið breytileg og á rætur að rekja til breytileika í gögnum, tímatafa í gagnaöflun og fleiri þátta. Þrátt fyrir það séu niðurstöður byggðar á traustum grunni og sannprófaðar með reglulegum hætti.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
