Hinrik Örn Bjarnason framkvæmdastjóri Eðalfangs, móðurfélags laxavinnslunnar Borgar Salmon, fiskvinnslunnar Norðanfisks og 101 Seafood, segir mikilvægt að koma Íslandi á kortið sem laxeldisþjóð – ekki eingöngu sem hráefnisframleiðanda heldur einnig sem fullvinnsluaðila. „Þar viljum við leggja hönd á plóg. Með meiri fullvinnslu fjölgar störfum í geiranum og verðmætið eykst.“
Hinrik segir að 70-80% af laxaframleiðslu Borgar Salmon sé útflutningur. „Veltan hjá okkur er að tvöfaldast milli ára og aukningin fer öll á erlendan markað.“
Andri Gunnarsson, stjórnarformaður Eðalfangs, segir að Borg Salmon og Norðanfiskur vinni vel saman. Auk þess að vinna hvítfiskinn þá reyki Norðanfiskur og grafi lax fyrir innanlandsmarkað. „Norðanfiskur er líklega stærsti aðilinn hér á landi í vinnslu og sölu fiskmetis.“
Hann bætir við að síðan framtakssjóðurinn Horn IV lagði Eðalfangi til einn milljarð króna í hlutafjáraukningu árið 2022 hafi fyrirtækið uppfært og endurnýjað báðar verksmiðjurnar fyrir alla þá upphæð og meira til. „Nú er laxaverksmiðjan á heimsmælikvarða með nýjustu tólum og tækjum frá Marel. Þau geta gert nánast allt sem manni dettur í hug.“
Auk þess er ný brauðunarlína Norðanfisks ein sú fullkomnasta á landinu núna að sögn Hinriks. „Þá erum við komin með nýjan reykofn á Akranesi fyrir laxinn. Hann leysir þann gamla af sem var orðinn 40 ára gamall.“
Fyrir tveimur vikum var ný bitaskurðarvél sett upp í Borgarnesi.
Andri segir góð tæki vera lykilatriði. „Þegar við erum að keppa við verksmiðjur erlendis sem greiða lægri laun þurfum við að vera með toppgræjur til að hámarka nýtingu.“
Andri segir laxeldið fjórðu iðnbyltinguna á Íslandi. „Þetta getur orðið jafn stórt eða stærra en allur íslenskur sjávarútvegur í útflutningsverðmætum. Laxinn er það vinsæl vara á heimsvísu.“
Hinrik segir sem dæmi að bandarískir viðskiptavinir vilji gjarnan kaupa eitt kíló af hvítfiski á móti hverjum sex af laxi. „Þó að lengi hafi allt snúist um hvítan fisk á Íslandi þá er laxinn orðinn gríðarlega stór á alþjóðamarkaði.“
Aðspurðir segja Hinrik og Andri að lykilatriði í starfseminni sé að vera með stöðugt vöruframboð. „Þú munt ekki ná að markaðssetja fiskinn sem spennandi vöru nema hann sé fáanlegur alla daga ársins og viðskiptavinir geti treyst því.“
Hinrik segir að íslenskur lax keppi m.a. við norskan lax, sem er vel þekktur um allan heim.
„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar. Þeim þykir íslenski laxinn fallegri á litinn og minna los í flakinu, sem má rekja til séríslenskra aðstæðna.“
Andri segir mikilvægt að búa til góða sögu um íslenska laxinn. Þannig styrkist vörumerkið.
Þeir Andri og Hinrik segja skort á „markaðsregnhlíf“ fyrir íslenska laxinn á alþjóðlegum markaði. Norðmenn, Færeyingar og Skotar séu mun framar hvað það varði. „Það eru enn allir bara hver í sínu horni hér á landi þegar kemur að markaðssetningu og ímyndaruppbygginu,“ segir Hinrik.
Hann segist aðspurður hafa rætt við Íslandsstofu en enn hafi ekki náðst sambærilegt samtal um laxinn og tekist hafi með hvítan fisk og saltfisk. „Laxeldisfyrirtækin hafa hingað til verið upptekin í því að ala fiskinn, slátra honum og koma í verð. Við höfum verið að reyna að taka við þessu kefli, að gera meira verðmæti úr fiskinum og skapa nýjan markað,“ segja þeir Andri og Hinrik að endingu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
