Í vikunni var tilkynnt að bjórknæpunni BrewDog á horni Hverfisgötu og Frakkastígs yrði brátt lokað. Staðurinn var opnaður árið 2018 og hefur lagt áherslu á vandaðan handverksbjór, bæði frá BrewDog og öðrum brugghúsum, og safaríkan mat.
Í viðtali á mbl.is sagði eigandinn Róbert Ólafsson að ástæða lokunarinnar sé hækkandi launakostnaður, verðhækkanir á aðföngum og vitaskuld síhækkandi skattlagning yfirvalda í formi áfengisgjalds. Segir Róbert að ekki sé hægt að velta öllum þessum kostnaði út í bjórverð, það sé komið yfir sársaukamörk hjá fólki.
Algengt verð á bjór á staðnum er 1.700-1.800 krónur fyrir 400 millilítra glas í dag, samkvæmt heimasíðu BrewDog. Þegar staðurinn var opnaður kostaði þekktasti bjór BrewDog, Punk IPA, 1.290 krónur á krana. Í dag er bara hægt að fá þann bjór í 440 millilítra dós og kostar hún 1.790 krónur.
Það er ekki bara hér á Íslandi sem rekstrarvandi hrjáir BrewDog. Eftir ótrúlegan uppgang frá því brugghúsið var stofnað árið 2007 dróst salan í fyrsta sinn saman í fyrra. Frá stofnun hefur salan aukist á hverju ári um að minnsta kosti 9% – og oft mun hraðar – jafnvel á tímum kórónuveirunnar.
Fjárhagsuppgjör fyrir árið 2024 sem birt var í síðasta mánuði batt enda á þessa ótrúlegu sigurgöngu. Tekjur stóðu nánast í stað árið 2024 og jukust um minna en 1% í 357 milljónir punda.
Hreinar tekjur, sem taka tillit til áfengisskatta sem yfirvöld innheimta, lækkuðu í raun lítillega. Tap fyrir skatta undanfarin tvö ár nemur næstum 100 milljónum punda. Fyrirtækið hefur þurft að skuldsetja sig frekar.
Það sem af er ári hefur lítið rofað til. Vörur BrewDog, þar á meðal Punk IPA, hafa verið teknar úr sölu á tvö þúsund krám þar sem viðskiptavinir kusu frekar bjór frá keppinautum. Í sumar tilkynnti brugghúsið að það myndi loka tíu börum sínum í Bretlandi, þar á meðal á heimaslóðum í Aberdeen.
Forsvarsmenn BrewDog segja að ekki þýði að berja lóminn. Raunar staðhæfa þeir að fregnir af hnignun fyrirtækisins séu ýktar. Tap hafi verið á rekstri margra kráa og lokun þeirra muni draga úr kostnaði. Sama gildir að þeirra mati um áhrif þess að BrewDog-bjór hafi verið úthýst af mörgum öldurhúsum.
Á móti komi að stórir dreifingarsamningar hafi verið gerðir við vinsæla staði á borð við London Stadium, heimavöll West Ham United, og Isle of Wight-hátíðina. Þessir samningar, segir talsmaður BrewDog, hafa skilað meira en þreföldu magni af þeirri sölu sem tapaðist á krám.
Ýmislegt hefur komið upp á í rekstri BrewDog síðustu ár sem hefur fælt áður trygga viðskiptavini frá. Fyrirtækið flaug hátt á uppgangstímum handverksbjórs, það var markaðssett sem „pönk“-brugghús og tók sér stöðu gegn stórum bjórframleiðendum.
Margir bjóráhugamenn keyptu hlut í BrewDog í gegnum hópfjármögnun þess og það kom þeim í opna skjöldu þegar tilkynnt var um það árið 2017 að stór fjárfestir hefði keypt rúmlega fimmtungshlut fyrir 213 milljónir punda. Vissulega hlaut að koma að því, rétt eins og í lífi flestra pönkara, að fyrirtækið missti kúlið en mörgum sárnaði að áfram væri leitað fjárfestinga í gegnum hópfjármögnun eftir þessa miklu innspýtingu.
Árið 2021 birtist opið bréf frá hópi starfsmanna BrewDog sem sögðust hafa þolað eitraða „óttamenningu“ sem hinn háværi og yfirlýsingaglaði stofnandi fyrirtækisins, James Watt, hafði skapað. Ýmsar uppákomur Watts síðan hann hætti sem forstjóri á síðasta ári, sem er stöðugt útvarpað á samfélagsmiðlum, virðast hafa geirneglt flutning fyrrverandi pönkarans yfir í yfirstétt Bretlands.
Einn viðmælandi breska blaðsins The Guardian ber saman þegar John Lydon, fyrrverandi forsprakki Sex Pistols, kom fram í auglýsingu fyrir smjörlíki og þegar myndir birtust af James Watt í afmælisveislu Nigels Farage, leiðtoga Umbótaflokksins.
Margir segja að trúverðugleikinn hafi tapast árið 2017. Ekki einasta með áðurnefndri innkomu stórs fjárfestis heldur einnig þegar BrewDog hótaði tveimur litlum börum lögsókn. Öðrum fyrir að nota nafnið Lone Wolf – sama nafn og áfengistegund sem BrewDog var að reyna að koma á markað, og hinum – pöbb í Leeds – fyrir að kalla sig Draft Punk. Kaldhæðni þess að fyrirtækið reyndi að fá einkaleyfi á orðinu pönk fór ekki fram hjá bjóráhugafólki.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
