Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku banka segir í samtali við ViðskiptaMoggann að á meðan fyrsti hluti af sögu Kviku snúist um uppbyggingu eignastýringar og annar hlutinn um stækkun lánabókarinnar snúist sá þriðji um fókus. „Við komumst að þeirri niðurstöðu í árslok 2023 að skynsamlegast væri að selja TM. Grunnurinn að þeirri sameiningu var í raun Lykill. Þess vegna héldum við honum eftir þegar Landsbankinn keypti TM. Nú er Lykill bara eitt af vörumerkjum Kviku, en ekki sérstakt fyrirtæki. Ég er ekki viss um að við hefðum keypt TM nema út af Lykli. Það hefur náðst mikil hagræðing út úr þeirri sameiningu.“
Kvika fékk mjög hagstætt verð fyrir TM að sögn Ármanns. „Ég fullyrði að sameining TM, Lykils og Kviku hafi skapað mjög mikil verðmæti fyrir hluthafa Kviku, enda varð hún undirstaðan að hinum mikla útlánavexti okkar auk mikillar arðsútgreiðslu til hluthafa í kjölfar sölunnar.“
Á þessu ári hefur arðsemi kjarnarekstrar Kviku aukist mikið og aðhald verið aukið. „Það stefnir í metár í rekstrinum,“ segir Ármann.
Spurður nánar um ástæðuna fyrir sölu TM segir Ármann að Kvika hafi þegar allt kom til alls ekki verið að gera neitt fyrir TM sem fyrirtækið gat ekki gert sjálft, eins og hann orðar það. „Það varð ekki sú tekjusamlegð sem við bjuggumst við. Því var ákveðið að selja og nýta hluta af fjármagninu sem við borguðum ekki út til hluthafa til að styrkja eiginfjárgrunninn og stefna svo á enn frekari útlánavöxt. Við erum í raun komin með það sterka innviði og stoðsvið að við getum tvöfaldað lánabókina á næstu þremur árum án þess að auka kostnað svo heitið geti.“
Hann segir að upphaflega hafi stjórnendur Kviku talið að það að eiga jafn öflugt tryggingafélag og TM myndi styrkja lánshæfi bankans og hjálpa til við alþjóðlega skuldabréfaútgáfu. „Ég held að það hafi verið rétt metið á sínum tíma. Bankinn var mjög lítill án TM. Það hefði verið erfitt fyrir okkur að fara í alþjóðlegar skuldabréfaútgáfur án TM, en síðan höfum við eflst svo mikið að salan á TM hafði ekki áhrif á lánshæfismat Kviku.“
Annað atriði sem getur verið vandasamt eru miklar sveiflur í rekstri tryggingafélaga. „Það kemur einkum til vegna hinna stóru fjárfestingasjóða sem félögin halda úti á móti tjónaskuldbindingu sinni. Afkoman af þeirri starfsemi sveiflast ákafalega mikið, allt eftir því hvernig árar á hlutabréfamörkuðum. Og við sveiflumst líka í takt við markaðinn vegna fjárfestingarbankastarfsemi okkar. Þannig að þetta fór ekki nógu vel saman. Sveiflurnar í rekstrinum ýktust sem virkaði ekki vel úti á markaðinum.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
