Erlendir aðilar taki stóran hluta í kostnað

Starfsgreinasambandið hyggst beita öllum tiltækum ráðum til að verja sína …
Starfsgreinasambandið hyggst beita öllum tiltækum ráðum til að verja sína félagsmenn fyrir óréttlæti sem lítur að erlendum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar. Samsett mynd

Starfsgreinasambandið (SGS) fordæmir ólögmæta markaðssetningu erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar hér á landi.

Sambandið segir í ályktun á 10. þingi þess, sem lauk í Hofi á Akureyri í gær, að lögum samkvæmt sé óheimilt að ráðstafa lífeyrisiðgjaldi í annað en lífeyrisréttindi.

„Þrátt fyrir það hafa erlendir aðilar á borð við Allianz og Bayern tekið stóran hluta af lífeyrissparnaði íslensks launafólks í þóknanir og kostnað – allt að 25,8% fyrstu fimm árin og að meðaltali 7,9% yfir 40 ára samningstíma.

Þetta jafngildir milljörðum króna sem dregnir hafa verið af sparnaði launafólks og runnið í arðsemisvélar erlendra tryggingafélaga og íslenskra fjármálafyrirtækja.

Þannig er lífeyrissparnaður launafólks smám saman étinn upp af þóknunum sem
aldrei hefðu átt að fara í annað en að tryggja framtíðarréttindi,“ segir í ályktuninni.

Brot á lögum og jafnræðisreglu stjórnarskrár

Starfsgreinasambandið telur fyrirkomulagið ganga gegn lögum, vera ósanngjarnt og brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Þingið gagnrýnir að sölumenn félaganna hafi herjað sérstaklega á ungt fólk á vinnumarkaði og fengið það til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði sínum og tilgreindri séreign í slíkan sparnað, án þess að vera upplýst um raunverulegan kostnað og langtímatap.

Þingið spyr:

  • Hvernig getur Fjármálaeftirlitið/Seðlabankinn litið fram hjá þessu, þegar lögin eru skýr?
  • Hvers vegna hefur þetta verið látið viðgangast árum saman, þrátt fyrir fyrri úrskurði stjórnvalda?

Þingið krefst þess að:

  • Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið stöðvi tafarlaust miðlun lífeyrissparnaðar sem ráðstafar iðgjöldum í þóknanir.
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið staðfesti opinberlega að allar greiðslur sem byggjast á ráðstöfun iðgjalda í annað en lífeyrisréttindi séu óheimilar.
  • Réttarstaða sjóðsfélaga sem þegar hafa tapað fé verði endurskoðuð, með það að markmiði að þeir fái tjón sitt bætt.
  • Sérstök áhersla verði lögð á vernd ungs fólks sem er viðkvæmasti hópurinn fyrir þessari villandi markaðssetningu.

„10. þing SGS skorar á Umboðsmann Alþingis að hefja frumkvæðisrannsókn á þessu máli, þar sem augljóslega er um að ræða kerfisbundið brot á lögum og jafnræðisreglu, sem opinberar stofnanir hafa látið viðgangast árum saman," segir í ályktuninni.

„SGS mun beita öllum tiltækum ráðum til að verja sína félagsmenn fyrir þessu óréttlæti er lýtur að erlendum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK