Dr. Egill Júlíusson er framkvæmdastjóri tæknisviðs (e. CTO) hjá Arctic Green Energy. Hann stýrir jafnframt þekkingarsetri fyrirtækisins á Íslandi. Egill er viðmælandi í svipmynd ViðskiptaMoggans þessa vikuna.
Egill starfaði áður hjá Landsvirkjun þar sem hann gegndi stöðu nýsköpunarstjóra og yfirforðafræðings. Hann er er með BSc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslanda, MSc. og PhD. í jarðvarmaauðlindaverkfræði frá Stanford-háskóla. Hann er einnig aðjunkt við Háskólann í Reykjavík.
Egill er mikill hvatamaður nýsköpunar og þróunar í orkugeiranum. Hann hefur unnið að margs konar nýjungum, m.a. hugbúnaði, reikniaðferðum, nýjum tegundum mælitækja og breytingum í því hvernig orkukerfi eru hugsuð, tengingu auðlinda við markað og rekstrarumhverfi fyrirtækja. Verkefnin eru gjarna þróuð í samstarfi milli fyrirtækja og háskóla, en Egill hefur leiðbeint yfir 20 masters- og doktorsnemum með þeirra verkefni.
Hvaða ákvörðun í starfi hefur reynst þér best – eða kennt þér mest?
Ég hef alltaf verið mjög opinn fyrir samstarfi og opnum samskiptum. Því fylgja kostir og gallar, ef þú færð góða hugmynd og deilir henni með hópi fólks, þá siturðu ekki lengur einn að henni, en það er líklegra að hún verði betri og raungerist í samstarfi við aðra. Það gladdi mig t.a.m. mjög fyrir skemmstu þegar tveir nemendur, sem ég hef tekið þátt í að leiðbeina, komu til mín og buðu mér að koma að stofnun nýsköpunarfélags á grunni hugmynda sem ég kom að.
Hver er mikilvægasta venjan þín sem stjórnandi eða starfsmaður?
Ég legg mikið upp úr að sjálfræði (e. autonomy) og trausti, þ.e. að starfsfólk hafi tækifæri til að móta sitt starf, vinna með sína styrkleika og vera treyst fyrir sínum verkefnum. Einnig finnst mér opin og jákvæð samskipti vera mjög mikilvæg, allir geti sagt sína skoðun og borið upp nýjar hugmyndir.
Hver er þinn stóri draumur í tengslum við starfsferilinn?
Ég lifi fyrir það að koma að hvers konar nýjungum í orkugeiranum, sem hafa langvarandi jákvæð áhrif, og hef notið þess að koma að nokkrum slíkum. Mér finnst langskemmtilegast þegar ég vinn í góðu teymi þar sem jákvæður andi ríkir, í bland við framsýni og afrakstur. Svo finnst mér sérstaklega skemmtilegt þegar a.m.k. hluti verkefnisins innifelur e.k. mælibúnað eða tækjaþróun sem dregur mann aðeins frá skjánum og út í mörkina.
Hvaða tækni eða nýjung hefur breytt þínu vinnulagi mest síðustu árin?
Ég held að augljósa svarið við þessu sé nú gervigreindin, ChatGTP o.fl. slíkt. Ég hef notað þetta við fjölmörg verkefni, allt frá því að skipuleggja frí með fjölskyldunni yfir í að skrifa forritsbúta.
Hvernig byrjarðu daginn þinn?
Ég hendi mér í sturtu og græja morgunmat fyrir þá yngstu. Ef ég er góður tek ég mér 20 mínútur í hreyfiflæðiæfingar sem sjúkraþjálfarinn kenndi mér í sumar. Svo kyssi ég konuna (þeir sem kyssa konuna sína áður en þeir fara í vinnuna lifa nefnilega að meðaltali 5 árum lengur – segir hún a.m.k.), hoppa á rafhjólið og renni upp í vinnu.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnu?
Þessa dagana er golfið í miklu uppáhaldi. Þótt ég komist ekki alltaf á völlinn er gaman að renna upp í Bása með góðum félaga eða einhverjum úr fjölskyldunni. Annars er strandblakið líka mjög skemmtilegt og skíðin líka þegar vel viðrar.
Hvað finnst þér fólk almennt ekki vita um þig?
Seint á kvöldin á ég það til að laumast í hámhorf á stærðfræðimyndböndum á youtube. Ég veit að það er ekki góð svefnvenja en ég bara stenst ekki mátið.
Hvert var fyrsta starfið þitt og hvað lærðirðu af því?
Fyrsta alvöru starfið (fyrir utan sumarstörf þegar ég var unglingur) var fyrir Decode. Ég held að ég hafi fyrst og fremst lært að sækjast eftir því starfi sem mig langaði að vinna. Starfið var ekkert auglýst, ég hafði bara samband, fékk meðmæli frá þeim sem þekktu til mín og lýsti áhuga mínum á að gera gagn. Það virkaði og ég held að ég hafi aldrei unnið við auglýst starf frá þeim tíma.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi – og af hverju?
Ég á margar góðar minningar úr Þórsmörk. Það er eitthvað við þetta stórbrotna landslag, gróðurinn, árnar, sandana, jöklana og kyrrðina sem talar til mín.
Hvaða hlutar gætirðu ekki verið án?
Ég eignaðist forláta Bose QC Ultra-heyrnartól fyrir um ári en hundurinn okkar ákvað að gæða sér á öðru þeirra um daginn. Það var tilfinnanlegur missir því ég hlusta mikið á tónlist, hljóðbækur, og hlaðvörp.
Áttu þér einhvern fastan sið eða venju sem veitir þér jarðtengingu í daglegu lífi?
Ég er kannski ekki með ákveðinn sið en finn að ef ég kemst ekki út að leika mér reglulega (í golfi, blaki, skíðum eða öðru) þá verð ég hálfviðþolslaus og leiðinlegur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
