Á meðan fyrsti áfangi í tíu ára sögu Kviku banka var uppbygging eignastýringar var annar áfanginn stækkun lánabókar og aukning vaxtatekna. „Þar var bankinn með mjög litla hlutdeild miðað við stóru bankana. Það var veikleiki hjá okkur að fjármögnunin hentaði ekki til mikils útlánavaxtar á þessum tíma. Lánabókin var aðeins um 25 milljarðar þegar ég hóf störf árið 2017 vegna þessa og erfitt að stækka hana. Bankinn rak ekki útibú og var mjög lítið í einstaklingsviðskiptum. Fjármögnunin var mest í formi útgáfu víxla og einhverra skuldabréfa, ásamt því að taka við peningamarkaðs- og innlánum frá stærri aðilum,“ segir Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku í samtali við ViðskiptaMoggann.
Til að stækka lánabókina þurfti því að styrkja fjármögnunina. „Leiðin sem við sáum var að safna innlánum frá almenningi án þess að stofna útibú. Við vildum nýta fjártæknina og gera þetta með litlum tilkostnaði.“
Út úr þessum hugmyndum varð Auður til í ársbyrjun 2019.
„Þarna byrjum við að safna innlánum án þess að bæta einum einasta starfsmanni við. Þetta varð mjög skilvirkt og ódýrt. Auðar-smáforritið var líka mjög haganlega gert og einstaklega vel heppnað, þökk sé frábæru fólki sem vann að þessu hér hjá okkur.“
Það sem hjálpaði Kviku í þessari vegferð var að sögn Ármanns að stóru bankarnir buðu frekar lága vexti á sparnað, sérstaklega óbundin sparnaðarinnlán. „Við gátum því komið inn á markaðinn og boðið nokkrum prósentum hærri vexti. Það var samt frábær fjármögnun fyrir okkur. Á þessum tíma voru stýrivextir Seðlabankans 4,25% en bankarnir buðu innan við 1% vexti á óbundin sparnaðarlán. Við gátum strax boðið 4% vexti. Sú fjármögnun var samt undir stýrivöxtum. Við gátum síðan lánað þessa fjármuni út og fengið 3-4% vaxtamun, allt án þess að setja upp útibú. Við náðum að byggja þetta upp og þjónustan hefur vaxið og dafnað alla tíð. Við fórum svo af stað með húsnæðislán undir nafni Auðar fyrr á árinu og lögðum áherslu á einfaldleika, gagnsæi og hagstæð kjör. Það hefur tekist vel, því viðtökurnar hafa verið framar öllum okkar væntingum.
Í dag eru yfir fimmtíu þúsund manns með reikning hjá Auði og innlánasafnið er mjög dreift.“
Ármann viðurkennir að oft sé erfitt að fá fólk til að færa sig á milli banka en þarna hafi það tekist. Tilboðið hafi einfaldlega verið of gott. „Innlán hjá Auði eru í dag um 120-130 milljarðar. Það eru fjármunir sem ekki voru til hér fyrir fimm árum. Auður er lykillinn að stækkun lánabókarinnar okkar.“
Kaup á tryggingafélaginu TM og dótturfélagi þess, bílalánafyrirtækinu Lykli, árið 2020 hafði mikil áhrif á tekjur bankans. Þar kom hin nýja fjármögnun Auðar að góðum notum. „Eftir að við eignumst Lykil verðum við einn stærsti lánveitandi í bílalánum og tækjaleigu á Íslandi. Lánabókin stækkaði mjög mikið. Við kaupum svo fjártæknifyrirtækin Netgíró og Aur sem eru umsvifamikil í neytendalánum, ári seinna. Eftir þessar yfirtökur skerum við rekstrarkostnað þessara félaga mikið niður. Við notum okkar innviði í staðinn og nýtum um leið miklu betri og ódýrari fjármögnun Auðar.“
Ármann segir að Lykill, Aur og Netgíró hafi fyrir samrunann aðallega fjármagnað sig með mun dýrari skuldabréfaútgáfu og annarri bankalántöku.
Bankastjórinn segir að annar mikilvægur þáttur í ytri vexti Kviku og útlánasafnsins séu kaupin á breska fasteignalánafyrirtækinu Ortus. „Þar koma Auðar-innlánin ekki að gagni en geta bankans til að gefa út skuldabréf í erlendri mynt gera það aftur á móti. Núna undanfarið höfum við verið að endurfjármagna dýrari fjármögnun félagsins úti í Bretlandi og náð meiri vaxtamun og stækkun á lánasafninu.“
Þegar allt er talið hefur lánasafn Kviku stækkað úr 22 milljörðum í 175 á tíu árum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
