Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans
Með hverju er maðurinn að skrifa? Svakalega er þetta groddaleg skrift. Þannig spurðu margir þegar Donald Trump tók til við að undirrita tilskipanir í gríð og erg þar sem hann sat við skrifborðið í egglaga skrifstofu sinni í Washington.
Þarna hlaut að vera um einhvers konar undratæki að ræða, að minnsta kosti penna sem kostaði hundruð eða þúsundir dollara.
Annað kom á daginn. Hinn glysgjarni peningakarl hafði fallið fyrir tússpenna úr smiðju Sharpie. Þeir kosta nokkra dollara. Og svarið fyrir valinu var einfalt: það er miklu betra að skrifa með þeim en þessum dýrari áhöldum. Ekki skemmir fyrir að undirskriftin verður óvenju vígaleg. Fer ekki fram hjá neinum, ekki frekar en turnarnir og golfvellirnir sem bera nafn forsetans knáa.
Staðreyndin er þó sú að þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn velta fyrir sér hvers konar penna forsetar Bandaríkjanna nota við þá iðju að leiða hluti í lög eða annan lögformlegan farveg hjá þessu valdamesta ríki veraldar.
Ýmsar pennategundir hafa orðið frægar að endemum, meðal annars úr smiðju Cross og Parker. Verður síðarnefndi framleiðandinn að bera þann kross að hafa notið hvað mestra vinsælda meðal höfðingjanna. Lyndon B. Johnson notaðist t.d. við Eversharp.
Minna hefur farið fyrir hinum glæstu Mont Blanc-pennum á forsetaskrifborðinu. Er það miður enda fáir pennasmiðir sem náð hafa annarri eins fágun og glæsileik og einmitt sá þýski meistari sem hefur frá árinu 1910 glatt rithöfunda og aðra þá sem festa vilja hugsanir sínar og ákvarðanir á blað með afgerandi hætti.
En þar eru til undantekningar eins og í flestu í mannlegu samfélagi. Af forsetunum sem þjónað hafa frá fyrsta áratug 20. aldar er að minnsta kosti einn sem hefur notast við Mont Blanc. Og það þarf engum að koma á óvart að það var Kennedy. Hann notaðist vissulega við fleiri tegundir en Meisterstück nr. 149 varð þar fyrir valinu. Háklassískur eins og flest það sem hinn írsk-ameríski kaþólikki tók sér í hönd eða klæddist.
Þetta er nefnt í ljósi þess að um langt árabil hafa aðdáendur Mont Blanc-pennanna getað fjárfest í pennum sem sérstaklega eru hannaðir og tileinkaðir frægum einstaklingum. Vísar fyrirtækið í ýmsar áttir, bæði innan lista og menningar en einnig á stjórnmálasviðið og til íþrótta.
Hófst sú vegferð fyrirtækisins árið 1992 þegar penni var kynntur til sögunnar í minningu Ernests Hemingways. Það var þó ekki fyrr en árið 2009 sem fyrirtækið fleytti á markað sérstakri línu þar sem sífellt fleiri heimsfrægum einstaklingum er sýndur hinn mikli sómi.
John F. Kennedy er að sjálfsögðu í þeim hópi og penninn sem tileinkaður er forsetanum unga sem hlaut hin döpru örlög í Dallas er afar smekklegur, fæst raunar í tveimur litum og bæði í stáli og gulli. Hann er afar elegant.
Mig hefur lengi langað í penna af þessu tagi, enda verið áhugamaður um feril JFK frá því að ég var unglingur. Það atvikaðist þó þannig fyrir nokkrum árum, þegar ég ætlaði að tryggja mér eintak af gripunum, að ég var staddur í Kaupmannahöfn og álpaðist inn í Mont Blanc-verslun á Strikinu. Eftir nokkra leit kom í ljós að verslunin hafði þá nýlega selt siðasta eintakið sem henni var úthlutað það árið af pennanum fagra.
Var ég í slíku stuði að ég vildi alls ekki yfirgefa borgina án nýs penna. Varð þá úr að ég valdi mér annan grip til heimfarar. Þar varð fyrir valinu penni sem gefinn var út í minningu hnefaleikakappans Mohammads Alis. Þar er á ferðinni vígalegur penni, alsettur táknum sem tengd eru minningu íþróttahetjunnar óviðjafnanlegu. Þar bregður fyrir fiðrildi og býflugu, enda sveif hann og stakk eins og þær mögnuðu skepnur. Þá vísa dularrúnir í þann rosalega fjölda „tæknilegu rothögga“ sem hann státaði af á ferli sínum.
Þessir gripir eru ævieign fyrir þann sem ekki týnir þeim. Og það má alveg eiga fleiri en einn og fleiri en tvo. Það eiga þeir flestir sameiginlegt sem á annað borð ánetjast þessum pennum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
