Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum gæti formlegri sögu Kviku lokið innan skamms. Stefnt er að sameiningu við Arion banka. „Við erum að vinna í áreiðanleikakönnunum og forviðræður eru í gangi við Samkeppniseftirlitið,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, í samtali við ViðskiptaMoggann.
Ármann segir viðræðurnar uppbyggilegar. „Samkeppniseftirlitið hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að gæta hagsmuna neytenda. Við teljum okkur hafa sama markmið, að þetta verði til hagsbóta fyrir markaðinn, neytendur og viðskiptavini, þó að við sjáum að sjálfsögðu líka mikil verðmæti í þessu fyrir okkar hluthafa.“
Ármann segir aðspurður að engin tímamörk séu í forviðræðunum. „En markmið okkar er að láta þetta ekki dragast mjög á langinn. Mín persónulega von er að það verði komin einhver niðurstaða úr forviðræðunum á næstu 2-3 mánuðum.“
Spurður um næstu skref hjá honum sjálfum gangi samruninn eftir segist Ármann ekki sækjast eftir að leiða sameinaðan banka. „Það hefur enginn komið að máli við mig,“ segir hann og hlær.
Hann segir þó ekki loku fyrir það skotið að hann haldi áfram störfum hjá sameinuðu fyrirtæki, þó það verði ekki sem forstjóri. Það sé þó allt óráðið.
Ármann segir aðspurður óhjákvæmilegt að einhverjir missi vinnuna hjá báðum bönkum, enda sé kostnaðarhagræði eitt af því sem stefnt sé að með samrunanum. „Það liggur fyrir að bæði ég og Benedikt [Gíslason bankastjóri Arion banka] munum í sameiningu skipa í stöður með það grundvallarmarkmið að velja hæfasta fólkið í störfin óháð hvaðan það kemur. Fyrir minni aðilann eins og okkur er það mjög mikilvægt, enda hefur það oft orðið lendingin í samrunum að stærri aðilinn ráði meiru í þeim efnum,“ segir Ármann að endingu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
