Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi Lava Show, segir útlit fyrir að yfir 200 þúsund manns muni skoða sýninguna í ár og að með sama áframhaldi verði gestafjöldinn um 250 þúsund á næsta ári. Vegna mikillar aðsóknar sé verið að tvöfalda sýningarrýmið á Fiskislóð á Granda.
Blaðamaður ræddi við Ragnhildi á milli sýninga Lava Show á viðburðinum Taste of Iceland í Boston sem Íslandsstofa skipuleggur. Við það tilefni voru þau Ragnhildur og eiginmaður hennar, Júlíus Ingi Jónsson, með fjórar sýningar yfir daginn og leyndi sér ekki að gestir sýndu íslenska hrauninu mikinn áhuga. Þurfti Lava Show-teymið að byrja daginn snemma, eða um fimmleytið, til að hita hraunið svo að það næði tilsettu bræðslumarki.
Þau hjón stofnuðu fyrirtækið árið 2016 og árið 2018 opnuðu þau fyrsta sýningarrýmið á Víkurbraut 5 í Vík í Mýrdal. Aðsóknin jókst jafnt og þétt eða þar til kórónuveirufaraldurinn (2020-2021) setti strik í reikninginn. Hún jókst svo á nýjan leik og er nú meiri en nokkru sinni.
Húsnæðið í Vík er um 300 fermetrar og er veitingastaður um helmingur rýmisins. Vegna mikillar aðsóknar opnuðu þau 700 fermetra sýningarrými á Fiskislóð 73 á Granda í Reykjavík í árslok 2022 og eru nú að tvöfalda það rými í 1.400 fermetra.
„Með því getum við tekið á móti helmingi fleiri gestum en við gerum í dag. Við opnuðum í sumar fremri helminginn af því rými, sem við breyttum í glæsilega minjagripaverslun þar sem við seljum hrauntengda muni, m.a. muni sem við erum að búa til úr hrauninu. T.d. þetta hálsmen, sem er úr hrafntinnu,“ segir Ragnhildur og sýnir blaðamanni.
„Þetta byrjaði hægt og rólega hjá okkur en hefur stækkað hratt síðustu ár. Vöxturinn síðustu tvö ár hefur reyndar verið hreint ótrúlegur. Við fengum um 185 þúsund gesti í fyrra og gerum ráð fyrir að fá yfir 200 þúsund gesti í ár. Með sama áframhaldi má gera ráð fyrir um 250 þúsund gestum á næsta ári. Við erum að glíma við það lúxusvandamál að geta ekki tekið á móti fleiri gestum yfir háannatímann – yfir hásumarið, um páskana og um jólin – sem er ástæða þess að við erum að stækka sýningarrýmið í Reykjavík. Við viljum enda ekki þurfa að vísa fólki frá. Fyrstu árin reyndum við eins og við gátum að fá fólk inn um dyrnar en nú er uppselt marga daga á ári.“
„Við erum nú með 25 starfsmenn í fullu starfi og hlutastarfsmenn líka. Ætli við séum ekki með um 45 manns á launaskrá á báðum stöðum, í Reykjavík og í Vík í Mýrdal, og erum auðvitað mjög stolt af því,“ segir Ragnhildur en vegna samlegðaráhrifa muni starfsmönnum á Granda ekki fjölga í takt við tvöföldun sýningarrýmisins.
Ragnhildur segir erlenda ferðamenn hafa verið vel yfir 90% gesta. Sýningarefnið hafi tekið mið af því og verið á ensku. Með því að stækka sýningarrýmið á Granda skapist betra tækifæri til að vera með sýningarefni á íslensku og þannig bregðast við auknum áhuga Íslendinga á sýningunni.
„Það kemur fólki yfirleitt á óvart hvað þetta er skemmtilegt. Ég held að Íslendingar haldi stundum að þeir viti allt um hraun og eldfjöll en fólk lærir alltaf eitthvað nýtt. Hlutfall Íslendinga í gestahópnum fer hækkandi og við erum til dæmis farin að fá töluvert af fyrirtækjum sem halda starfsmannagleði hjá okkur. Svo kemur fólk líka til að heyra sögu okkar og fá innblástur. Lava Show er sem sprotafyrirtæki gott dæmi um nýsköpun og við fáum reglulega til okkar hópa sem vilja fá innsýn í það hvernig við komumst yfir þær hindranir sem voru í veginum,“ segir Ragnhildur.
Þau hjónin stofnuðu sem áður segir fyrirtækið árið 2016.
„Það tók okkur rúmlega tvö ár að koma þessu á legg. Við fengum hugmyndina í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi sem hófst þremur vikum fyrir stóra gosið í Eyjafallajökli 2010. Við fórum að skoða eldgosið og horfðum á hraunfossinn steypast niður í gilið. Það var ólýsanlegt,“ segir Ragnhildur.
Saga Lava Show sem sprotafyrirtækis sé gott dæmi um þrautseigjuna sem þarf til að stofna fyrirtæki. Þau hafi fengið hugmyndina 2010 en ári síðar hafi strákarnir þeirra tveir – þau eiga þrjá í dag – greinst á einhverfurófi. „Við lögðum hins vegar ekki árar í bát, fengum góða hjálp frá fullt af fólki og er útkoman fram úr okkar björtustu vonum,“ segir hún að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
