Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 13. október.
Upp úr sauð á milli Kína og Bandaríkjanna í lok síðustu viku í kjölfar ákvörðunar ráðamanna í Peking um að setja frekari skorður á útflutning sjaldgæfra jarðmálma.
Bæði verður núna erfiðara en áður fyrir erlenda kaupendur að koma höndum á sjaldgæfa jarðmálma sem framleiddir eru í Kína, en að auki lögðu kínversk stjórnvöld bann á þátttöku kínverskra ríkisborgara í rekstri jarðmálmanáma erlendis, og þarf núna blessun yfirvalda til að nota kínverskar náma- og vinnsluaðferðir í jarðmálmaverkefnum í öðrum löndum.
Nýju reglurnar tiltaka sérstaklega að óheimilt verði að selja sjaldgæfa jarðmálma til notkunar við framleiðslu hergagna, en umsóknir um útflutning til annarra nota verða metnar hver fyrir sig.
Frá Kína koma um 70% af heildarmagni þeirra sjaldgæfu jarðmálma sem framleiddir eru á heimsvísu, en um er að ræða hóp frumefna sem eru ómissandi í hátækniframleiðslu af ýmsu tagi, og nýtast í allt frá tölvukubbum yfir í rafmagnsbíla og hergögn. Greinendur hafa bent á að Kína hefur gengið æ lengra í að nýta yfirburðastöðu sína á þessum mikilvæga markaði til að fá vilja sínum framgengt gagnvart öðrum löndum, og líta sumir á nýjasta útspil kínverskra stjórnvalda sem tilraun til að knýja fram tilslakanir í viðskiptum Bandaríkjanna og Kína.
Trump brást ókvæða við ákvörðun kínverskra ráðamanna og lét Bandaríkjaforseti gamminn geisa á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann sakaði Kína um fjandsamlega framkomu. Trump gaf þar í skyn að ekki myndi verða af fyrirhuguðum fundi hans og Xi Jinping á hliðarlínum ráðstefnu APEC-ríkjanna í Suður-Kóreu síðar í mánuðinum. Þá sagðist Trump tilneyddur að gjalda líku líkt og bæði leggja nýja tolla á kínverskan varning og setja skorður á útflutning til Kína.
Síðar birti Trump færslu þar sem hann greindi frá að 1. nóvember næstkomandi yrði lagður 100% tollur á kínverskan varning, til viðbótar við þá tolla sem þegar eru í gildi. Samhliða því verða settar hömlur á útflutning á því sem forsetinn kallar „mikilvægan hugbúnað“ (e. critical software).
Líkt og Morgunblaðið fjallaði um á sínum tíma tókst að stilla til friðar í tollastríði Kína og Bandaríkjanna á fundi sem haldinn var í Genf í maí síðastliðnum. Kínverskar vörur bera núna 30% toll í Bandaríkjunum og verður því lagður 130% tollur á þær ef hækkunin verður að veruleika um næstu mánaðamót.
Í kjölfar ákvörðunar Trumps veiktist bandaríkjadalurinn gagnvart helstu gjaldmiðlum og S&P 500-hlutabréfavísitalan lækkaði um 2,7%, Dow Jones um 1,9% og Nasdaq-vísitalan um 3,5%. Olíuverð lækkaði um 3% en heimsmarkaðsverð á gulli hækkaði um 1,5% sem þykir til marks um að vaxandi óvissa plagi fjárfesta.
Hlutabréfamarkaðir í Mið-Austurlöndum eru opnir á sunnudag og þar lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur. Aðalvísitala Sádi-Arabíu veiktist um 0,8% en í Katar lækkaði aðalvísitalan um 0,9%.
Gætt hefur vaxandi spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína undanfarna mánuði og vikur, og hafa ríkin m.a. deilt um hvort Kína skerði um of aðgang erlendra kaupenda að sjaldgæfum jarðmálmum. Þeir samningar sem ríkin höfðu gert sín á milli kváðu á um að Kína myndi auka framboðið af jarðmálmum og hefur Trump sakað kínversk stjórnvöld um að standa ekki við þau fyrirheit. Varð úr að beita Kína þrýstingi, fyrst með því að banna sölu á öflugum nýjum tölvukubbi Nvidia til Kína. Því næst tilkynntu bandarísk stjórnvöld að sérstakt gjald yrði lagt á vörur sem bærust til Bandaríkjanna á kínverskum skipum, og á föstudag hóf Kína að gera slíkt hið sama við varning sem berst þangað með bandarískum fleyjum.
Kínverska viðskiptaráðuneytið sendi frá sér tilkynningu á sunnudag þar sem bandarísk stjórnvöld voru sökuð um að hafa jafnt og þétt þrengt að kínverskum útflytjendum. „Að hóta því við hvert fótmál að leggja á nýja tolla er ekki rétta leiðin til að eiga við Kína,“ sagði í tilkynningu ráðuneytisins. „Haldi Bandaríkin áfram á sömu braut mun Kína bregðast við af festu með samsvarandi aðgerðum til að verja lögmæt réttindi og hagsmuni landsins.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
