Vinnumarkaðurinn sýnir nú merki um kólnun eftir nokkur ár af mikilli spennu. Skráð atvinnuleysi hefur farið hækkandi og mældist 3,5% í september samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist enn frekar í október í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins Play, sem lýsti yfir gjaldþroti í lok september. Um 475 manns misstu vinnuna, þar af 420 hjá Play og 55 hjá Airport Associates.
Greiningardeild Íslandsbanka bendir á þetta í nýjum pistli en nefnir sömuleiðis að langtímakjarasamningar, sem undirritaðir voru í fyrra, tryggi hóflegar launahækkanir næstu ár. Samningarnir ná til um 70% almenns vinnumarkaðar og fela í sér 3,25-3,5% launahækkanir á ári. Opinberir starfsmenn sömdu á sambærilegum nótum.
Verðbólga hefur verið undir þeim viðmiðum sem kveða á um endurskoðun samninga. Næsta mögulega endurskoðun getur orðið í september 2026, ef verðbólga fer yfir ákveðin mörk.
