Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir og EFLA verkfræðistofa tilkynntu í dag um stefnumarkandi samstarf fyrirtækjanna. Samstarfið mun sameina hugbúnaðarlausnir Klappa og sérfræðiráðgjöf EFLU til að veita íslenskum fyrirtækjum heildstæða lausn á sviði sjálfbærniupplýsingagjafar og vinnu við gerð og yfirferð á sjálfbærniskýrslum.
Fram kemur í tilkynningu að samstarfið muni hjálpa viðskiptavinum Klappa við að mæta vaxandi eftirspurn í ráðgjafaþjónustu varðandi sjálfbærniuppgjör. EFLA verður þar virkur þátttakandi í samstarfsneti Klappa með megin áherslu á aðstoð við gerð og yfirferð á sjálfbærniuppgjöri fyrirtækja.
„Samstarfið við EFLU er gríðarlega mikilvægt, með því að sameina krafta beggja fyrirtækja sköpum við grundvöll til að veita fleiri fyrirtækjum enn betri þjónustu við utanumhald og gerð sjálfbærniuppgjöra. Eftirspurn eftir sjálfbærniskýrslugerð og ráðgjöf hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og færri hafa komist að en vilja. Það er afar mikilvægt að íslensk fyrirtæki haldi áfram á sinni sjálfbærnivegferð og nákvæmt umhverfis bókhald er lykilatriði í að Ísland nái sínum markmiðum í loftslagsmálum," er haft eftir Írisi Karlsdóttur, Framkvæmdastjóra Samstarfs hjá Klöppum.