Miðaverð á stórtónleika úti í heimi hefur rokið upp síðustu ár. Nýjar tölur frá Bretlandi sýna að meðalverð hefur hækkað um 521% frá 1996 til 2025, úr 17 pundum í 106 sem er um 17 þúsund íslenskar krónur. Þessar tölur taka til allra tónleika en ef bara er horft til stórra tónleika verður myndin öllu svartari.
Þessi þróun var til umfjöllunar í breska blaðinu The Guardian á dögunum. Þar kom jafnframt fram að ef miðaverð á tónleika hefði hækkað í takt við verðbólgu væri meðalverð nú rúm 34 pund, eða um 5.500 krónur. Mesta hækkunin hefur komið fram á síðustu árum, eða um 80% frá 2021.
Þessi þróun er ískyggileg að mati margra í tónlistarheiminum. Á meðan stóru stjörnurnar maka krókinn eiga minni listamenn í erfiðleikum með að halda sér á floti og illa gengur að reka smærri tónleikastaði.
Hvað veldur þessu? Líklega byrjaði þróunin þegar sala hljómplatna þurrkaðist upp og tekjur frá streymisveitum sem komu í staðinn reyndust afar lágar. Á þeim tímapunkti sáu margir sér þann kost vænstan að kreista eins mikla peninga út úr tónleikahaldi og frekast var unnt. En svo tróðu risastórir tónleikahaldarar eins og Ticketmaster og Live Nation sér í partíið og þeir taka sinn hlut og vel það.
Hugmyndin um góða kvöldstund á fornfrægum og fallegum tónleikastöðum er út úr myndinni í dag; nú snýst allt um það að spila fyrir eins marga á eins fáum kvöldum og mögulegt er. Sumsé að troða eins mörgum og frekast er unnt inn á risastóra leikvanga. Þar kostar hálfan handlegg að komast inn, flugeldasýningar eru við sviðið og risaskjáir úti um allt. Og ofan á allt annað kostar bjórinn margfalt það sem fólk borgar annars staðar fyrir hann.
Greint var frá því fyrra að tónlistariðnaðurinn í Bretlandi hefði aldrei verið verðmætari en árið 2023 eftir að stórstjörnur á borð við Beyoncé, Coldplay, Elton John og Ed Sheeran fóru í stór tónleikaferðalög. Þá hafði tónlistarfólk verið svelt af slíkum viðburðum um hríð vegna kórónuveirunnar.
Alls jókst hlutdeild tónlistariðnaðarins í breskum efnahag um 13% þetta ár. Víðar varð slíkra áhrifa vart. Í Svíþjóð fór allt á hliðina þegar Beyoncé hélt tvenna tónleika í Stokkhólmi. Alls sóttu 46 þúsund manns tónleikana og komu margir til borgarinnar í þeim eina tilgangi með tilheyrandi gistinóttum á hótelum og heimsóknum á veitingastaði. Hagfræðingar sögðu að verðbólga hefði af þessum sökum mælst hærri en búist hafði verið við.
Í The Guardian er greint frá nýrri skýrslu stafrænu markaðsstofunnar Dark Horse um stóra listamenn og muninn á verðinu sem þeir rukka í dag og rukkuðu árið 2005. Þá þurfti tónlistaráhugafólk yfirleitt að eiga á bilinu 30 til 50 pund ef það vildi sjá listamann á leikvangi eða í stórri höll.
Í dag kostar jafnan langt yfir 100 pund á slíka tónleika og margir listamenn rukka jafnvel meira ef fólk vill kaupa sérstaka pakka. Samkvæmt Dark Horse var miðaverð á „almennt stæði“ á Oasis-tónleikum árið 2005 jafnvirði þriggja klukkustunda vinnu á algengu tímakaupi. Nú til dags þyrftirðu að puða í næstum heilan dag til að geta pungað út fyrir slíkum miða: sjö klukkustundir og 56 mínútur nákvæmlega.
Árið 2022 kostaði miði í stæði á tónleikaröð Billie Eilish í O2-höllinni í London að meðaltali 76 pund. Í sumar var verðið um 245 pund. Það gerir um 40 þúsund krónur.
Þetta eru bara almennu miðarnir. Ástandið verður enn verra þegar skoðað er hvað rukkað er fyrir „VIP“-miða sem nú verða sífellt algengari. Dýrasti „pakkinn“ á Wembley-tónleika Oasis kostaði 506 pund á mann. Það eru 83 þúsund krónur. Þegar Beyoncé spilaði á Tottenham Hotspur-leikvanginum kostuðu sæti í „Buckin’ Honey Pit“ og „Sweet Honey Pit“ 858 pund, litlar 140 þúsund krónur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
Jóhann Elíasson:
ERU ÞETTA EKKI NÁKVÆMLEGA SÖMU MISTÖKIN OG ÍSLENDINGAR ERU AÐ …
/frimg/1/60/30/1603045.jpg)