Hlutabréfamarkaðurinn hækkaði nokkuð hressilega í dag eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm í svokölluðu vaxtamáli Íslandsbanka. Úrvalsvísitalan hækkaði um rúm 2% í viðskiptum dagsins.
Hlutabréf Íslandsbanka hækkuðu um 3,7% og enduðu daginn í 127 krónum á hlut. Í kjölfar dómsins sendi bankinn frá sér tilkynningu þar sem fram kom að fyrsta mat á fjárhagslegum áhrifum dómsins bendi til að þau verði umtalsvert lægri en áður var talið.
Arion banki og Kvika hækkuðu einnig eða um 3,1% og tæp 2%. Viðbrögð markaðarins virðast benda til þess að fjárfestar líti jákvætt á niðurstöðu dómsins og að dregið hafi verið úr óvissu.
