Telma Sif Reynisdóttir hefur bæst í eigendahóp Novum lögfræðiþjónustu en hún hefur starfað hjá stofunni frá árinu 2022. Alls starfa nú átta lögfræðingar undir merkjum Novum.
Fram kemur í tilkynningu að Telma Sif hafi á undanförnum mánuðum veitt fjölda umbjóðenda ráðgjöf í málum er varða tjón í kjölfar náttúruhamfara í Grindavík.
„Það er einstaklega ánægjulegt að fá Telmu Sif inn í eigendahóp stofunnar. Telma hefur í gegnum starf sitt hjá Novum sýnt fram á einstaka hæfileika til að setja sig í spor viðskiptavina og mæta þörfum þeirra með faglegri ráðgjöf sem eru einmitt þau gildi sem við höfum að leiðarljósi hjá Novum. Koma hennar í eigendahópinn styrkir okkur í þeirri vegferð að byggja starfsemina áfram á þeim trausta grunni sem við höfum lagt,” er haft eftir Ólafi Lúther Einarssyni, framkvæmdastjóra Novum.
