Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Harðorð gagnrýni hefur komið fram í umsögnum helstu fagaðila og hagsmunasamtaka í samráðsgátt stjórnvalda um fyrirhugaðar breytingar á uppgjörsreglum virðisaukaskatts sem fjármála- og efnahagsráðuneytið, með Daða Má Kristófersson ráðherra í fararbroddi, hefur lagt fram. Bæði KPMG, ECIT, Deloitte Legal og Félag atvinnurekenda (FA) telja að breytingarnar muni leiða til aukins rekstrarkostnaðar, aukins álags á fyrirtæki og bókhaldsaðila og tilfærslu fjármagnskostnaðar frá ríkinu yfir á atvinnulífið.
KPMG og ECIT benda á að veltuviðmið fyrir mánaðarskil, sem lagt er til að verði 60 milljónir króna, sé langt undir sambærilegum mörkum í nágrannalöndum. Í Danmörku sé viðmiðið einn milljarður króna og í Noregi 540 milljónir króna. Þau leggja til að íslenska viðmiðið verði að lágmarki 500 milljónir. Að þeirra mati myndi boðuð regla flytja fjölda minni og meðalstórra fyrirtækja í mánaðarskil, án nokkurrar raunverulegrar þarfar með tilheyrandi kostnaði og álagi.
Deloitte Legal tekur í sama streng og varar við því að fjölgun uppgjörstímabila myndi hafa gríðarleg áhrif á fjölda rekstraraðila. Slíkar breytingar gætu kallað á fjölgun stöðugilda í bókhaldsdeildum fyrirtækja og hjá fagaðilum, sem þegar glíma við álag við skil á virðisaukaskatti.
Viðbótarkostnaðurinn verður ekki einungis fyrir fyrirtæki heldur einnig Skattinn sjálfan. Fjölgun uppgjörstímabila leiðir óhjákvæmilega til fleiri leiðréttingaskýrslna og krefst aukinna afkasta hjá Skattinum. KPMG og ECIT benda á að afgreiðslutími leiðréttingaskýrslna sé þegar of langur og fari oft út fyrir lögbundinn frest. Þau telja ólíklegt að Skatturinn ráði við aukið umfang.
Sérstaklega áhugavert er að sjá að Deloitte Legal bendir á að hinar boðuðu breytingar muni hafa áhrif á sjóðstreymi fyrirtækja og geti leitt til hærri fjármagnskostnaðar. Þar er bent á að lægri fjármagnskostnaður ríkissjóðs muni að líkindum endurspeglast í hærri fjármagnskostnaði rekstraraðila.
FA tekur sömuleiðis skýrt fram að með styttingu uppgjörstímabila og greiðslufrests sé fjármagnskostnaður í raun færður frá ríkissjóði til fyrirtækja. Í umsögn félagsins segir að breytingarnar muni í mörgum tilvikum þýða að fyrirtæki þurfi að standa skil á virðisaukaskatti áður en þau hafi fengið greitt fyrir vörur sínar. Slíkt geti þýtt aukna þörf á skammtímafjármögnun á hærri vöxtum en ríkissjóður greiðir.
FA bendir jafnframt á að breytingarnar geti haft neikvæð samkeppnisleg áhrif. Með styttri greiðslufresti sé hætta á að stærri smásölukeðjur, sem hafa betri samningsstöðu, hagnist á kostnað minni fyrirtækja.
Hvatt er til þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið endurskoði áformin áður en þau verða að lögum.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.