Landsbankinn bregst við hæstaréttardómi

Áhættan var metin á um 26,2 milljarða króna.
Áhættan var metin á um 26,2 milljarða króna. Morgunblaðið/Eggert

Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm í gær í máli sem varðar skilmála um breytilega vexti í óverðtryggðu íbúðaláni Íslandsbanka. Málið hefur vakið athygli vegna mögulegra áhrifa á fjármálastofnanir og lánasamninga viðskiptavina.

Landsbankinn hefur birt tilkynningu vegna þessa þar sem vísað er til þess að enn eigi eftir að fá niðurstöðu í sambærilegu máli sem var höfðað gegn bankanum, en málin séu ekki að öllu leyti eins. Munur er meðal annars á orðalagi skilmála, málsatvikum og málsástæðum.

Að mati Landsbankans er nauðsynlegt að fá úrlausn Hæstaréttar um ákveðin atriði í því máli áður en bankinn tekur afstöðu til vaxtabreytinga á sambærilegum lánum.

Þrátt fyrir að endanleg niðurstaða í máli Landsbankans liggi ekki fyrir, telur bankinn að dómurinn í máli Íslandsbanka gefi tilefni til endurskoðunar á skilmálum um breytilega vexti í nýjum íbúðalánum.

Bankinn bendir sömuleiðis á að í árshlutareikningi samstæðu Landsbankans fyrir annan ársfjórðung 2025 kemur fram bráðabirgðamat á mögulegum fjárhagslegum áhrifum ef niðurstaða dómsmálsins verður bankanum óhagstæð. Þar var áhættan metin um 26,2 milljarðar króna. Bankinn muni endurskoða þetta mat í uppgjöri þriðja ársfjórðungs, sem verður birt 23. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK