Danski vindorkuiðnaðurinn virðist standa frammi fyrir alvarlegum áskorunum þar sem vindmyllur á hafi úti hafa staðið kyrrar í allnokkurn tíma, þegar litið er til síðustu fimm mánaða. Vísað er til framleiðslutaps sem talið er fjórfalt meira en fyrir þremur árum, samkvæmt nýrri greiningu frá CIP Fonden sem bæði Finans og Berlingske í Danmörku fjalla um.
Ástæðan virðist vera skortur á eftirspurn eftir grænni orku. Þrátt fyrir aukið framboð hafa stór dönsk iðnfyrirtæki og aðrir orkukaupendur ekki enn tekið nægilega stór skref í átt að orkuskiptum. Þetta hefur leitt til þess að vindmyllur eru tímabundið stöðvaðar, einfaldlega vegna þess að enginn kaupir orkuna.
Í ljósi þessarar stöðu hvetur danski orkugeirinn til þess að fleiri fyrirtæki skipti yfir í græna orku og byggðar verði fleiri raforkutengingar til útlanda. Slíkar aðgerðir gætu styrkt orkuöryggi Evrópu og tryggt betri nýtingu á þeirri endurnýjanlegu orku sem þegar er fyrir hendi. mj@mbl.is
