Róbert Wessman forstjóri Alvotech segir að félagið sé ungt að árum en hafi byggt upp sterka innviði og sé nú á mikilli vaxtarleið. Hann sér félagið fyrir sér sem leiðandi fyrirtæki á sínu sviði innan tíu ára.
„Það helsta sem er fram undan hjá okkur er að halda áfram að byggja félagið upp. Við höfum verið í örum vexti og frá árinu 2013 hefur verið fjárfest í starfseminni fyrir um 200 milljarða króna. Við höfum byggt upp mjög öflugt félag með alla þróun og alla framleiðslugetu innanhúss. Við erum nú að fara inn á 90 markaði og getum keppt við frumlyf hvar sem er í heiminum,“ segir Róbert og bendir á að félagið sé enn í vaxtarfasa.
„Við höfum aðeins verið örfá ár með fyrsta lyfið á markaði. Mestur hluti tímans hefur farið í að byggja upp aðstöðuna, þróunargetu og að klára þróun fyrstu lyfjanna. Í dag erum við með tvö lyf á markaði en það breytist nú hratt. Við ætlum að bæta við næstu þremur lyfjum fyrir árslok 2025 og því fjórða árið 2026. Þar að auki eru spennandi ný lyf í farvatninu sem munu koma á markað í framhaldinu.“
Róbert segir að félagið einbeiti sér að því að geta þjónustað sjúklinga og tryggt að vöxturinn gangi farsællega fyrir sig.
„Við erum að byggja félagið myndarlega upp, styrkja innviði þess og sjá til þess að við getum annað eftirspurn þegar fleiri lyf koma á markað. Mikil áhersla er líka á að gera nýja samninga við markaðsaðila úti um allan heim,“ segir hann.
Spurður um framtíðarsýn sína til lengri tíma litið svarar Róbert að stefnan sé sett á að vera í fararbroddi í heiminum á sviði líftæknilyfja.
„Við stefnum að því að vera leiðandi félag í okkar geira. Miðað við innviði okkar og þau lyf sem við erum með í þróun í dag erum við í mjög góðri stöðu til að ná því markmiði innan tíu ára. Ég hef mikla trú á því.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
