Fasteignafélagið Þórkatla færði niður virði eignasafns félagsins um 16,8 milljarða króna í ársreikningi fyrir 2024. Ástæðan fyrir niðurfærslunni er yfirstandandi eldsumbrot og almenn óvissa.
ViðskiptaMogginn leitaði til Arnars Viðars Skúlasonar framkvæmdastjóra Þórkötlu, sem nefnir að ákvörðun um niðurfærslu á virði eignanna sé byggð á ítarlegri greiningu sérfræðinga í verðmati. Matið byggist á nokkrum forsendum, þeirri miklu óvissu sem félagið býr við og vísbendingum um að markaðsvirði fasteignanna í lok árs 2024 sé lægra en kaupverð Þórkötlu.
Við framkvæmd verðmats á eignum Þórkötlu hafi verið horft til áætlaðs sjóðstreymis frá eignunum til framtíðar, horft hafi verið til þess að eignir verði leigðar til skemmri tíma, en seldar þegar áætlað er að viðeigandi eftirspurn verði fyrir hendi. Aðferðafræðin byggist á því að hluti eigna fari í útleigu eftir lok jarðhræringa og að allar eignir verði seldar á nokkurra ára tímabili í kjölfarið.
Fasteignafélagið Þórkatla er einkahlutafélag, að mestu í eigu ríkissjóðs, en þó fara fjármálastofnanir með lítinn hluta í því. Félagið er ekki á fjárlögum og nýtur ekki ríkisábyrgðar. Félagið yfirtók fasteignalán seljenda fasteigna í Grindavík og myndaðist með því krafa fjármálafyrirtækja á félagið, en einnig er hluti af framlagi ríkisjóðs til félagsins í formi láns til Þórkötlu.
Fjárfesting Þórkötlu í 950 eignum í Grindavík nemur um 72 milljörðum króna. Fjármögnun þessara kaupa er í stórum dráttum þannig að um 22 milljarðar eru yfirtekin verðtryggð fasteignalán fjármálastofnana, um 10 milljarðar eru verðtryggt lán frá ríkissjóði og svo um 40 milljarðar eiginfjárframlag ríkissjóðs. Verðtryggðar skuldir Þórkötlu vegna kaupa á fasteignum er því samtals um 32 milljarðar króna, en fjármagnsliðir koma ekki til greiðslu fyrr en við uppgjör lánanna.
Örn Viðar bendir á að árlegur kostnaður við rekstur eignanna, svo sem brunatrygging, hiti og rafmagn, sé um 280 milljónir króna, en auk þess sé gert ráð fyrir viðhaldi á árinu 2025 fyrir um 220 milljónir króna. Heildarútgjöld við rekstur Þórkötlu án fjármagnsliða sé því á bilinu 800 til 900 milljónir króna á ári.
Fjármögnun rekstrar fyrir árin 2025 og 2026 liggur fyrir og stefnt er að því að sala og leiga eigna standi undir rekstri félagsins frá og með árinu 2027.
Félagið vinnur nú að útfærslu á sérstakri endurkaupaáætlun, þar sem fyrri eigendum eignanna verður boðið að kaupa þær til baka. Áætlunin verður kynnt í byrjun árs 2026 og er vonast til að hægt verði að hefjast handa við framkvæmd hennar strax árið 2026.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
