Hugbúnaðarfyrirtækið AwareGO hefur gert samning við nokkur stórfyrirtæki á þessu ári eftir algjöran niðurskurð starfseminnar fyrir tveimur árum, þar sem stofnendur tóku aftur við stjórn félagsins.
AwareGO þróar hugbúnað og efni á sviði upplýsingatækniöryggis til að auka meðvitund og bæta hegðun notenda tölvukerfa, eins og útskýrt er í ársskýrslu fyrirtækisins.
Stærstu viðbæturnar á viðskiptavinalistanum eru bandaríski afþreyingarrisinn Warner Bros., sem flestir þekkja sem umsvifamikinn kvikmyndaframleiðanda, og alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Accenture, fjórða stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna mælt í fjölda starfsmanna.
Hjónin Ragnar Sigurðsson og Helga Björg Steinþórsdóttir, sem stofnuðu félagið árið 2007, segja í samtali við Morgunblaðið að samningarnir séu mikill hvalreki. Um sé að ræða sölu á um 40 þúsund notendaleyfum til hvors fyrirtækis um sig. „Hjá Accenture starfa 800 þúsund manns þannig að það verður mögulega hægt að selja þeim fleiri leyfi í fyllingu tímans. Að auki veitir Accenture öðrum félögum ráðgjöf um hugbúnað. Vonandi mun Accenture ráðleggja sínum viðskiptavinum að nota okkur eftir að hafa notað kerfið fyrir sína starfsmenn,“ útskýra þau Ragnar og Helga.
Vörurnar sem Warner Bros. og Accenture kaupa eru hvor af sínum meiði. „Accenture kaupir af okkur áhættumatskerfi en Warner Bros. kaupir af okkur kennslumyndbönd í tölvuöryggi. Þetta eru myndbönd sem við höfum framleitt allt frá stofnun og eru grunnhugmyndin að rekstrinum. Fyrirtæki kaupa aðgang og láta starfsmenn horfa á myndbönd til að gera þá betur meðvitaða um netógnir í starfsumhverfinu.“
Þó að kennslumyndböndin hafi frá byrjun verið ær og kýr félagsins er áhættustjórnunin nú orðin söluhæsta varan. „Með henni geta fyrirtæki mælt hversu vel starfsmenn eru í stakk búnir að forðast netárásir. Forritið mælir og sér hvort netöryggisfræðsla hafi komist til skila. Við skoðum þekkingu fólks og hegðun fyrir framan skjáinn. Búnaðurinn nemur hvernig og hvert starfsmenn færa tölvumúsina, hvernig þeir nota lyklaborðið og hvaða ákvarðanir þeir taka.“
Spurð hvernig samningarnir komu til segja hjónin að Warner Bros. hafi rambað á AwareGO á myndbandarásinni YouTube. Accenture hafi hins vegar séð gamlan bloggpóst sem vakti áhuga þeirra. „Þeim fannst boðskapurinn ríma vel við það sem þau voru að gera,“ segir Helga.
Hún segir að mjög margt jákvætt sé að gerast hjá AwareGO þessi misserin eftir hið nýja upphaf í rekstrinum. „Það gengur ótrúlega vel.“
Hluthafar fyrirtækisins eru þeir sömu og fyrir niðurskurð. Þar er fjárfestingarsjóðurinn Eyrir Ventures atkvæðamestur með tæplega 37% hlut. „Þau hafa staðið þétt við bakið á okkur í þessum breytingum,“ segir Helga.
Um ástæður þess að ákveðið var að strípa AwareGO niður segir Helga að um tíma hafi fyrirtækið stækkað hratt og starfsmenn verið orðnir tuttugu sex. Skorið var niður í þrjá starfsmenn árið 2022. Þeir eru sjö í dag. „Við þurftum að breyta um stefnu. Fyrri stefna gekk því miður ekki upp í erfiðu fjármögnunarumhverfi.“
Í fyrrnefndri ársskýrslu AwareGO segir að fyrirtækið sé til sölu. „Á árinu voru gerð tilboð í félagið og var eitt þeirra samþykkt af hluthöfum, en eftir breytingar á stjórnendateymi kaupanda var fallið frá kaupunum. Áfram er því unnið að því að finna góðan samstarfsaðila eða kaupanda,“ segir í skýrslunni.
Helga segir að samstarfið við Eyri hafi verið mjög farsælt. „Það skiptir gríðarlegu máli í svona sprotafyrirtæki að vera með fjárfesta með sér í liði, einhverja sem koma með fleira en peninga að borðinu, eins og raunverulega þekkingu og stjórnunaraðstoð. Þórður Magnússon eigandi Eyris og Ingvar Pétursson fyrrverandi fjármálastjóri hjá leikjarisanum Nintendo eru þar betri en engir. Þá er Sigrún Inga Ævarsdóttir lögfræðingur með þeim í stjórn.“
Tekjur AwareGO í fyrra voru 103 milljónir króna. Í ár er búist við allt að 150 milljóna króna tekjum.
Aðspurð að lokum segir Helga að eftirspurn eftir netöryggislausnum hafi sjaldan verið meiri en nú um stundir. „Þetta er í dag orðið vandamál allra, ekki bara banka eða stærri fyrirtækja. Það eru allir pínu smeykir.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
