Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans.
Það væri ekki skrítið ef lesendur væri farið að gruna að við nautnaseggirnir sem skiptumst á að skrifa þennan litla lífsstílspistil ViðskiptaMoggans drykkjum ekki annað en frönsk gæðavín, og legðum okkur varla mat til munns nema hann hefði að lágmarki eina Michelinstjörnu.
En lífsins gæði eru ekki bara fólgin í því fína, dýra og fágæta, og oft er það hversdagslúxusinn sem skiptir mestu máli.
Þessa vikuna langar mig því að taka lesendur niður á ögn lægra plan en venjulega, og er tilefnið að ég skrifa pistilinn frá Flórída þar sem ég hef verið að vitja minna uppáhaldsskyndibitastaða. Vafalaust eru margir í hópi lesenda sem þekkja þessa skyndibitastaði vel, en bandaríska matarflóran er svo fjölbreytt að örugglega eru líka sumir sem hafa ekki prófað skyndibitann sem mér finnst ómissandi að láta eftir mér þá sjaldan sem tækifæri gefst.
Það ætti að fylgja með að umrædda veitingastaði má alls ekki heimsækja of oft, ella verða eins og akfeitur skógarbjörn sem er tilbúinn að leggjast í híði yfir veturinn. Hér er um að ræða hreinræktað amerískt bras og kransæðakítti af óhollustu sort, sem má samt alveg leyfa sér í stuttum ferðum til útlanda, að því gefnu að fólk borði nóg af salati og drekki nóg af lýsi vikurnar á eftir til að rétta af kaloríu- og vítamínbúskap líkamans.
Ég uppgötvaði Arby's einmitt hér í Flórída, fyrir á að giska sextán árum. Það bar þannig til að ég hafði séð myndband sem fjallaði um þann óhollasta skyndibita sem finna mætti í Bandaríkjunum, og þar voru krullufrönskurnar frá Arby's efstar á lista.
Frönskurnar þeirra eru svo ljúffengar að það þarf enga sósu með þeim, enda kartaflan hjúpuð í þykka og bragðmikla djúpsteikingarhúð. Stjarnan á matseðlinum er Beef-and-cheddar-samlokan, sem er gerð úr nautakjöti sem búið er að skera í fínar sneiðar. Ég bið gjarnan um piparrótarsósu í bréfi, „horsey sauce“, og kreisti rák af sósunni á þá hlið hamborgarans sem ég kjamsa á, og fæ þannig ögn meiri kraft í hverja munnfylli. Með þessu er gott að drekka Dr. Pepper, helst með kirsuberjabragði, og finna litar- og aukaefnin streyma um blóðrásina.
Það gerðist frekar seint að ég prófaði þessa vinsælu kjúklingastaðakeðju, m.a. vegna þess að gamall vinur brýndi fyrir mér að sniðganga fyrirtækið fyrir að hafa tekið harða afstöðu gegn málstað samkynhneigðra þegar réttindabaráttan stóð hvað hæst á 10. áratugnum.
Chick-fil-a er nefnilega rekið á trúarlegum forsendum, og gengur m.a.s. svo langt að loka öllum útibúum sínum á sunnudögum þó að það kosti veitingastaðina miklar tekjur. Til marks um hvað fyrirtækið er kristilegt, þá má finna lítið box á áberandi stað rétt hjá afgreiðslukössunum, þar sem gestir geta laumað inn miða með ósk um að beðið verði fyrir þeim, og tekur starfsmaður keðjunnar það að sér að leggjast á bæn fyrir kúnnann þegar tækifæri gefst og er á fullum launum á meðan.
Eitthvað hefur dregið úr mesta offorsinu hjá Chick-fil-a, hvað snertir hinseginmálin, og hlýtur því að vera óhætt að versla við þau af og til. Agalega fínir kjúklingaborgarar eru þeirra sérgrein, eins og nafnið gefur til kynna, og er klassíski borgarinn bestur – sérstaklega ef honum fylgir súkkulaðisjeik, en Chick-fil-a setur ekki bara sprauturjóma efst á þéttan og frískandi mjólkurhristinginn, heldur líka fagurrautt kirsuber.
Chick-fil-a-sósan er afbrigði af sinnepssósu, og minnir að vissu marki á íslenska graflaxsósu. Ekki gleyma að biðja um 1-2 pakkningar, og kreista á borgarann til að fá litla sósurák í hvern munnbita.
Af veitingastöðunum þremur í þessari grein er Cinnabon sá sem hefur mesta alþjóðlega útbreiðslu og örugglega hafa lesendur rekist á útibú frá þeim í ferð til Bretlands, Spánar eða Hollands.
Það var í Perú að ég gekk fyrst á yndislega lyktina af kanilsnúðunum, og hef síðan þá keypt mér ófáar öskjur af þessu fjöldaframleidda en bragðgóða bakkelsi.
Fátt jafnast á við vel heppnaðan og nýbakaðan kanilsnúð, og þó að matseðill keðjunnar hafi orðið ögn fjölbreyttari í áranna rás, þá eru það stóru kanilsnúðarnir sem eru og verða í aðalhlutverki. Ég held mest upp á stóra snúðinn með pekanhnetukurli, glassúr og karamellusósu, og er best að borða snúðinn við eldhúsborðið heima með nýlöguðum kaffibolla.
Sykur- og hveitiskammturinn er svo mikill að eftir einn snúð ligg ég afvelta, og ef ég væri kaþólskur myndi ég næstum finna mig knúinn að játa syndir mínar fyrir presti eftir ofátið. Er þá kannski eins gott að heimsækja Cinnabon og Chick-fil-a í sömu ferðinni, og fá einhvern elskulegan kjúklingakokkinn til að biðja fyrir íslenskri sál sem á erfitt með að standast bráðfitandi sykrað feitmeti.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
