Icelandair Group birti afkomuviðvörun á miðvikudag þar sem fram kemur að EBIT-hagnaður þriðja ársfjórðungs verði um 74 milljónir bandaríkjadala en hafði verið 83,5 milljónir á sama tíma í fyrra. Þetta er töluvert undir væntingum stjórnenda, sem í uppgjöri annars ársfjórðungs höfðu gert ráð fyrir betri afkomu en árið áður.
Greiningarfyrirtækið Akkur hafði í sinni afkomuspá gert ráð fyrir EBIT upp á 80 milljónir dala, og er afkoman því einnig undir væntingum þess, þótt munurinn þar sé minni. Bent er á í greiningu Akkurs að EBIT sé hins vegar um 7,5% undir spá, sem telst innan skekkjumarka í jafn sveiflukenndum rekstri og flugrekstur er.
Það sem vekur meiri áhyggjur, að mati Akkurs, er að fjórði ársfjórðungur stefnir í neikvæða EBIT-afkomu upp á 23-33 milljónir dala, svipað og á sama tíma í fyrra, sem var mjög slakur fjórðungur.
Tekjur á þriðja fjórðungi jukust í samræmi við áætlanir, þrátt fyrir þrýsting á fargjöld á Norður-Atlantshafsmarkaðnum. Kostnaður var hins vegar hærri en áætlað var, meðal annars vegna sterkara raungengis krónunnar sem hafði áhrif á launakostnað, auk hærri eldsneytiskostnaðar og kostnaðar við ETS-kolefniseiningar. Óvænt skammtímaleiga á flugvél í ágúst vegna viðgerðar jók kostnað enn frekar.
Sjóðsstaða félagsins í lok september var sterk, með handbært fé upp á 410 milljónir dala og aðgang að óádregnum lánalínum upp á 92 milljónir dala. Gert er ráð fyrir neikvæðri EBIT-afkomu fyrir árið í heild sem nemur 10-20 milljónum dala, sem er nokkuð undir væntingum.
Horfur fyrir árið 2026 hafa sömuleiðis verið endurskoðaðar í ljósi veikrar eftirspurnar á Norður-Atlantshafsmarkaði og sterkrar krónu. Áhersla verður áfram á aukna skilvirkni og kostnaðaraðhald, og hefur þegar verið ráðist í fjölmargar aðgerðir til að bæta rekstur og afkomu, að því er fram kemur í tilkynningu.
Markaðurinn hefur brugðist illa við þessum tilkynningum og gengi félagsins lækkað nokkuð. Sem stendur er gengi bréfa félagsins komið undir eina krónu á hlut.
Þessu til viðbótar eru yfirvofandi áskoranir í starfsumhverfi félagsins, þar á meðal möguleg vinnustöðvun hjá flugumferðarstjórum og útrunnir kjarasamningar flugmanna og flugliða. Flugumferðarstjórar hafa boðað verkfallsaðgerðir í næstu viku náist ekki að semja. Haft hefur verið eftir formanni Félags íslenskra flugumferðarstjóra að viðræður við Samtök atvinnulífsins strandi á launalið og launaþróun. Viðræðurnar hafa staðið í mjög langan tíma.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
