Olís og Pikkoló í samstarf um kældar afhendingarstöðvar

Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Olís og Ragna M. Guðmundsdóttir, stofnandi …
Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Olís og Ragna M. Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Pikkoló. Ljósmynd/Aðsend

Olís og nýsköpunarfyrirtækið Pikkoló hafa gert með sér samstarfssamning um uppsetningu kældra afhendingarstöðva fyrir matvöru á þjónustustöðvum Olís. Fyrstu þrjár stöðvarnar verða staðsettar við Gullinbrú, í Garðabæ og við Ánanaust, og er áætlað að þær opni vorið 2026.

Fram kemur í tilkynningu að markmið verkefnisins sé að auka aðgengi fólks að ferskum mat- og dagvörum með einföldum, ódýrum og umhverfisvænum hætti. Afhendingarstöðvarnar verða opnar allan sólarhringinn og bjóða viðskiptavinum upp á sveigjanleika við móttöku pantana.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi sem fellur vel að framtíðarsýn okkar um að gera Olís að þægindamiðstöð framtíðarinnar,“ er haft eftir Ingunni Svölu Leifsdóttur, framkvæmdastjóra Olís í tilkynningu.

Ragna M. Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Pikkoló, segir samstarfið mikilvægt skref í átt að sjálfbæru dreifikerfi fyrir netverslun með matvöru. „Við viljum að allir geti nálgast fjölbreyttar og ferskar matvörur í nærumhverfi sínu,“ er haft eftir henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK