Eins og sagt var frá á mbl.is fyrr í vikunni var orkufyrirtækið Orkusalan valið besta græna vörumerkið á verðlaunahátíðinni Charge Awards 2025, sem íslenska vörumerkjastofan Brandr stendur fyrir ár hvert. Í þetta sinn fór hátíðin fram í Istanbúl í Tyrklandi.
Orkusalan var í hópi tilnefndra fyrirtækja á heimsvísu sem leggja áherslu á sjálfbæra orku, umhverfisvernd og samfélagslega ábyrgð.
Magnús Kristjánsson forstjóri fyrirtækisins segir í samtali við Morgunblaðið að þetta sé í fyrsta skipti sem íslenskt fyrirtæki hlýtur viðurkenninguna. „Dómnefndin er alþjóðleg. Við öttum þarna kappi við öll stærstu orkufyrirtæki heims,“ segir Magnús.
Spurður hverju beri að þakka þennan góða árangur segir Magnús að Orkusalan hafi byggt vörumerki sitt upp allt frá stofnun árið 2006. „Við höfum frá byrjun lagt áherslu á aðgreiningu Orkusölunnar á markaðinum með áherslu á græna sjálfbæra orku og stuð.“
Magnús segir aðspurður að Orkusalan hafi ýmislegt á prjónunum, nú sem endranær. „Við erum búin að fá fjölmörg rannsóknarleyfi fyrir nýja virkjunarkosti. Þá erum við að byrja á Gilsárvirkjun í Múlaþingi sem verður sjöunda vatnsaflsvirkjunin okkar.“
Þá segir Magnús að fyrirtækið sé byrjað að skoða virkjun jarðhita í Ölfusdal í Hveragerði og vindorku hjá Lagarfossvirkjun.
Orkusalan selur bæði orku sem hún framleiðir sjálf auk þess að endurselja orku sem keypt er á raforkumörkuðunum Vonarskarði og Elmu sem og hjá orkufyrirtækinu Landsvirkjun. Orkan er öll seld inn á almennan markað og ekki til stórnotenda eins og Magnús útskýrir. „Starfsemi okkar er umfangsmeiri en margir gera sér grein fyrir.“
Aðspurður segir Magnús að viðskiptavinir skipti tugum þúsunda. „Við framleiðum um einn fjórða af þeirri orku sem við seljum. Þá erum við með fjórðungs markaðshlutdeild á íslenskum raforkumarkaði.“
Orkusalan er dótturfélag Rarik ohf. Tekjur félagsins voru 7,3 milljarðar á síðasta ári og hagnaður 365 milljónir króna.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
