Albert Þór Magnússon, annar eigenda LDX19 ehf. sem rekur Lindex, Gina Tricot, Mayoral og Born in Iceland by EMIL&LÍNA, segir í samtali við ViðskiptaMoggann það ekki á hverjum degi sem verslanir fái tækifæri til að stækka verslunarrými sitt í Kringlunni. „Það losnuðu samningar í rýminu við hliðina á Gina Tricot en við hófum fljótlega samtal við eigenda plássins eftir vel heppnaða opnun Gina Tricot árið 2023. Það líktist helst rokktónleikum,“ segir Albert og hlær.
Gina Tricot er orðin fjórða vinsælasta kvenfataverslun landsins samkvæmt tölum frá Meniga Markaðsvakt með 10,2% hlutdeild. Verslunin hefur sótt mikið í sig veðrið síðan fyrsta útibúið var opnað með pomp og prakt í Kringlunni fyrir tveimur árum.
Viðbótarrýmið er í sameiginlegri eigu fasteignafélagsins Reita og Kvótabankans.
Spurður um markaðshlutdeild Gina Tricot alþjóðlega segir Albert að samkvæmt tölum frá sænska greiningarfyrirtækinu Market.se hafi vöxturinn verið ævintýralegur. 2024 fóru árstekjur fyrirtækisins í fyrsta skipti yfir þrjá milljarða sænskra króna, jafnvirði 38 milljarða íslenskra króna. „Höfuðstöðvarnar lögðu mikla áherslu á að við kæmum út í vor að fagna áfanganum á sænskum herragarði, sem við og gerðum. Það var mjög gaman.“
Gina Tricot starfrækir um 150 verslanir í fjórum löndum, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Íslandi. Að auki er netverslun Gina Tricot opin öllum Evrópubúum. Hjá fyrirtækinu starfa um 1.500 manns, þar af 50 á Íslandi.
Verslunin var stofnuð í Borås í Svíþjóð árið 1997 og er enn með höfuðstöðvar og vöruhús í bænum.
Albert segir að Gina Tricot hafi farið af stað á hárréttum tíma á Íslandi enda sé allt á fleygiferð hjá móðurfélaginu. „Það verður gaman að sjá hvað Gina Tricot nær langt á alþjóðasviðinu. Það eru sterkar vísbendingar um miklar og góðar viðtökur við nýjum verslunum í Evrópu.“
Ísland er eina landið þar sem Gina Tricot-verslanir eru reknar samkvæmt sérleyfi (e. franchise). „Ísland hefur reynst góður prufumarkaður fyrir sérleyfisrekstur. Menn hafa metnað til að taka það lengra. Ég hef sterkan grun um að sérleyfislöndum muni fjölga.“
Spurður um helstu ástæður fyrir velgengninni á Íslandi segir Albert að Gina Tricot bjóði mjög hnitmiðaðar vörur fyrir ungar konur á öllum aldri. Þá hafi áhersla á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð mikið að segja.
Einnig segir Albert að sænskar vörur virðist almennt höfða vel til Íslendinga. „Það eru einhverjir grunnþættir sem tengja okkur saman,“ bætir Albert við.
Sjálfur hefur Albert sænskt blóð í æðum, rekur ættir sínar til bátasmiðsins Eyvindar Austmanns Bjarnarsonar, fæddur á Gautlandi í Svíþjóð árið 830.
Að lokum segir Albert, aðspurður hvort ekki sé hætta á að missa sjónar á boltanum þegar vörumerkjum fjölgar, að þar skipti öllu að hafa flott fólk í kringum sig. Þá sé það hluti af hans eigin frumkvöðlaanda að halda áfram að skapa. „Ég er ótrúlega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og vil halda áfram að vaxa með íslenska markaðnum. Það hefur alltaf verið minn metnaður að vinna í alþjóðlegu umhverfi og þar er ég að lifa drauminn,“ segir Albert að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
