Fulltrúar stærstu fasteignafélaga landsins komu saman á fundi nýverið með borgarstjóra Reykjavíkur, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, og Hjálmari Sveinssyni, fulltrúa í skipulagsráði og borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Fasteignafélögunum ásamt hópi þróunar- og uppbyggingaraðilum var boðið til þess að ræða borgarskipulag. Fundurinn opinberaði, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins, algjört skilningsleysi borgarinnar varðandi rekstur og fjármögnun einkafyrirtækja.
Borgarstjóri segir lítið
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lýstu nokkrir fulltrúar félaganna á fundinum yfir mikilli óánægju með framgöngu borgarinnar í skipulagsmálum og sögðu samtalið við borgina einhliða. Einn fulltrúinn benti á að það hefði verið sama hvað var gagnrýnt eða reynt að fá breytt; Hjálmar hefði þrætt fyrir flest en borgarstjóri að sama skapi sagt afar lítið. Upplifun margra fulltrúa af fundinum hefði verið þannig að það ríki algjört skilningsleysi innan borgarinnar á öllu því sem viðkemur rekstri fasteignafélaga eða hvað varðar greiðslu og ábyrgð skulda í rekstri.
Danskur ráðgjafi sat fundinn
Á fundinum var einnig danskur ráðgjafi sem borgin hafði fengið til að veita innsýn í skipulagsmál. Aðspurður hafði hann hins vegar einungis unnið að skipulagsmálum fyrir Kaupmannahöfn og Árósa í Danmörku. Hann hafði aldrei áður komið til Íslands, hans fyrsta ferð var til að vera á fundinum. Að sögn nokkra fulltrúa hafi það opinberast á fundinum að ráðgjafinn hafði litla sem enga þekkingu á íslenskum aðstæðum, né stöðu borgarinnar í húsnæðismálum almennt. Ráðgjöf hans gagnist því lítið, enda tekur hann mið af aðstæðum í Danmörku sem eigi ekki við hér á landi.
45 þúsund fermetrar standa auðir
Fasteignafélögin bentu á að um 45.000 fermetrar í sinni eigu stæðu auðir í Reykjavík, flestir þessara fermetra væru á jarðhæð og sumir hefðu staðið auðir í allt að sjö ár. Það væri bein afleiðing kröfu borgarinnar um að nýtt húsnæði yrði að vera með verslunarrýmum á jarðhæð, sem lítil sem engin eftirspurn væri eftir. Fulltrúi eins félagsins nefndi sérstaklega að í þessum fermetrum mætti sjá hvar hluti af eiginfé félaganna lægi, þar væri það í raun fast.
Fasteignafélögin eru meðal stærstu skattgreiðenda borgarinnar og greiða milljarða í skatta á ári, en bentu á að þau hefðu vart getað náð fundi með borgarstjóra mánuðum saman, þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar um.
Samkvæmt heimildum blaðsins fullyrða fulltrúar fasteignafélaganna að það þýði í raun ekki að ræða við borgina eins og staðan sé í dag. Þar virðist ekki vera neinn vilji til að nálgast félögin á nokkurn hátt, né skilningur á aðstæðum.
Borgin og fasteignaverðið
Einn fulltrúi fasteignafélaganna bendir sömuleiðis á að umtöluð hækkun fasteignaverðs sé að stórum hluta á ábyrgð borgarinnar. „Borgin stýrir framboðinu, flækir og tefur alla ferla. Við það eykst fjármagnskostnaður byggingaraðila og kostnaðurinn skilar sér beint í hærra verði til kaupenda.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.