Heilbrigðistæknifyrirtækið Kara Connect ákvað að færa sig frá því að bjóða einungis upp á þjónustu sérfræðinga og er farið að selja vöruna á Írlandi og Bretlandi. Fyrirtækið selur nú þjónustu sína eingöngu til fyrirtækja og einkaaðila, eftir að samstarfið við hið opinbera reyndist þungt og tímafrekt.
„Við tókum ákvörðun um að skipta alveg um markað, við ákváðum að „pivota“ eins og það kallast og fengum fjármögnun til að keyra þá hugmynd áfram,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Kara Connect, í samtali við ViðskiptaMoggann.
„Það er meira en að segja það að skipta um vöru,“ segir hún og útskýrir að jafnvel þó að hægt sé að byggja nýjar vörur í kringum fyrri hugmyndir þá þurfi að byrja alveg upp á nýtt í markaðs- og sölumálum.
Hún bætir við að samskiptin við opinbera kerfið hafi reynst of flókin og fyrirtækið hafi séð hag sinn í að einbeita sér að sölu til einkafyrirtækja og hefja sókn erlendis.
„Ferlið reyndist oft og tíðum erfitt. Það tók of langan tíma að komast inn í heilbrigðiskerfið með þá hugmynd að tengja fólk hraðar við stærri hóp sérfræðinga strax. Í lok árs 2022 snerum við 180 gráður og ákváðum að einbeita okkur að því að vinna fyrir einkamarkaðinn og erlenda markaði. Einn daginn getum við vonandi unnið að lausnum með hinu opinbera.“
Grunnvara Köru Connect er velferðartorg sem hentar fyrirtækjum með 100 starfsmenn eða fleiri. Að auki býður félagið upp á leiðtoga- og stjórnendatorg sem og sprotatorg sem er fyrir minni félög. Torgin eru sérsniðin fyrir fyrirtæki og þarfir starfsfólks.
„Við byrjum að byggja torgin með sálfræðingum og sjúkraþjálfurum, en bætum svo við næringarráðgjöf, svefnráðgjöf og jafnvel fjármálaráðgjöf, eftir þörfum,“ segir Þorbjörg Helga.
Þegar Kara Connect ákvað að snúa sér að erlendum mörkuðum kom fljótt í ljós að stjórnendur þar eins og á Íslandi voru mjög tilbúnir að gera betur fyrir starfsmenn sína og styðja þá betur í velferðar- og geðheilbrigðismálum. Fyrirtækið hóf starfsemi á Írlandi í kjölfar vöruþróunar og frábærra viðskiptavina hér heima og hefur nú einnig stigið sín fyrstu skref í að selja þjónustu sína á fleiri mörkuðum innan Bretlands.
„Á Írlandi eru allir velkomnir inn á markaðinn,“ segir Þorbjörg Helga. „Það er enginn sem stoppar þig, þú þarft einfaldlega að standa þig og sýna fram á gæði þjónustunnar.“
Hún segir hafa komið þeim á óvart hve opið og skilvirkt kerfið er. Umsagnir og reynsla viðskiptavina hafi þar meira vægi en nokkuð annað. „Ef kúnninn er ánægður, þá er það besta auglýsing sem þú færð,“ útskýrir hún.
Annars staðar á Bretlandi er svipað fyrirkomulag. Þar sé fjarheilbrigðisþjónusta jafnvel fyrsta inngönguleið inn í heilbrigðiskerfið. „Þú byrjar á því að tala við einhvern í gegnum netið og ert svo færður áfram inn í kerfið ef þörf er á. Það sparar tíma, léttir á kerfinu og gerir þjónustuna aðgengilegri, þetta er þekkt leið í forgangsröðun,“ segir hún.
Þróunin á erlendum mörkuðum hefur verið hröð. Nýlega skrifaði Kara Connect undir samning við Mercury Construction og Dublin Airport Authority, sem nær yfir alla flugvelli á Írlandi.
„Þetta var stór áfangi fyrir okkur,“ segir Þorbjörg Helga. „Að ná inn í svo stóra einingu eins og flugvelli landsins er mikil viðurkenning. Við finnum að við náum inn til fyrirtækja með sterka öryggismenningu og gæðaeftirlit, því þar er geðheilbrigðisvandinn ofarlega á blaði sem mikilvægt mál að leysa.“
Á Bretlandi eru þrír starfsmenn komnir til starfa, og salan að ná sér á strik. „Við erum enn á byrjunarreit í Bretlandi, en það eru greinilega mörg tækifæri þar líka. Teymið er annars mjög fjölþjóðlegt bæði heima á skrifstofunni í Skipholti og að auki í Dublin og kemur frá 10 löndum,“ segir hún.
Þorbjörg Helga útskýrir að á Bretlandi sé algengt að fyrirtæki bjóði starfsfólki upp á símanúmer sem það getur hringt í til að fá aðstoð vegna veikinda. „Kerfislega séð er þetta fyrirkomulag þó orðið mjög gamalt og ekki í neinum takti við þarfirnar,“ segir hún.
Til að tryggja að alltaf sé einhver laus býður Kara Connect upp á svokallað „vistkerfi“ 3.000 sérfræðinga víðs vegar um Evrópu. „Þannig getum við alltaf boðið upp á lausa tíma. Það er ekki bundið við einn stað eða eitt land eða tungumál, vistkerfið gerir að verkum að kerfið virkar fyrir alla,“ segir hún.
Hún bendir á að áhrifin séu mælanleg. „Sum fyrirtæki hafa náð að lækka veikindahlutfall sitt um 25 prósent með því að bæta aðgengi starfsfólks að þessari þjónustu,“ útskýrir hún. Að meðaltali nýta 15-20% starfsmanna sér þjónustuna á hverju ári.
Hún útskýrir að áhrifin séu sýnileg þar sem starfsfólk nýti færri veikindadaga og nái meira jafnvægi í daglegu lífi. Fyrirtækin greiða aðeins fyrir þá tíma sem eru nýttir, og sjá jafnframt svart á hvítu hversu mikil notkunin er.
„Við sjáum að þetta er ekki bara falleg hugmynd heldur mælanleg breyting á vinnustöðum,“ segir Þorbjörg Helga.
Hún segir að íslenska heilbrigðiskerfið eigi langt í land með að innleiða nútímalegar lausnir og tækni. Þó sé vilji innan kerfisins til að ráðast í breytingar.
„Það er helst sorglegt að það sé ekki komið fjarheilbrigðiskerfi á Íslandi og margt sem má gera betur í þeim efnum,“ segir Þorbjörg.
Þorbjörg Helga segir þó að það standi til að gera breytingar í opinbera kerfinu. Hún bendir á að stjórnvöld hafi nýlega lýst því yfir að þau ætli að taka tæknimál í heilbrigðiskerfinu fastari tökum.
„Það voru jákvæðar fréttir að heyra ráðherra heilbrigðismála og ráðherra nýsköpunarmála tala um þessi mál í síðustu viku á nýsköpunarráðstefnu í heilbrigðisgeiranum,“ segir hún. „Ef það verður sett fram skýr framtíðarsýn um hvert kerfið á að stefna, þá geta opnast mjög mörg tækifæri.“
Að hennar mati er mikilvægt að hið opinbera hafi ekki of mörg aðskilin kerfi heldur að öll þjónusta sé sýnileg og skýr, bæði fyrir notendur og þá sem vinna með kerfinu.
„Ef við fáum slíka stefnu fram, þá getum við og önnur einkafyrirtæki unnið miklu betur með hinu opinbera,“ segir Þorbjörg Helga að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
