Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 6,0% í september 2025 miðað við sama mánuð árið áður, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.
Alls voru skráðar tæplega 544.000 gistinætur á hótelum á landsvísu, samanborið við tæplega 513.000 í september 2024.
Aukningin náði til allra landshluta nema Suðurnesja, þar sem gistinætur voru nær óbreyttar (-0,2%). Mest fjölgun var á Suðurlandi (15,0%), en einnig var töluverður vöxtur á Austurlandi (8,4%), Norðurlandi (6,8%) og Vesturlandi og Vestfjörðum (6,8%). Á höfuðborgarsvæðinu var aukningin minni, eða 1,6%.
Erlendir ferðamenn stóðu undir 91% af gistinóttum á hótelum í september, eða um 494.000 gistinóttum, sem er 11,2% aukning frá fyrra ári. Þegar litið er til allra skráðra gististaða var heildarfjöldi gistinátta í september áætlaður um 1.121.000. Þar af voru tæplega 704.000 gistinætur á hótelum og gistiheimilum og tæplega 418.000 á öðrum tegundum gististaða.
