Verðbólga reynist ansi þrálát og jókst á milli mánaða í október. Ársverðbólga mælist nú 4,3%. Mæling Hagstofunnar í október er yfir opinberum spám. Útlit er fyrir að verðbólga muni mælast á svipuðu róli næstu mánuði og taka svo að hjaðna á ný á fyrri hluta næsta árs að því er fram kemur í greiningu Íslandsbanka.
Húsnæðisliður vegur þyngst til hækkunar vísitölunnar í mánuðinum.
„Það er vegna þess að reiknaða húsaleigan hækkar um 0,9%, 0,19% áhrif á vísitölu neysluverðs (VNV). Þetta er svipuð hækkun og í síðasta mánuði en meiri hækkun en mánuðina þar á undan. Eftir að Hagstofan breytti aðferðafræðinni við útreikning á reiknuðu húsaleigunni í fyrrasumar hefur reynst erfitt að spá fyrir um þennan lið,“ segir í greiningunni.
Flestir aðrir liðir VNV hækkuðu á milli mánaða. Tómstundir og menning hækkaði um 0,8% og hafði mest áhrif á hækkun vísitölunnar að húsnæðisliðnum undanskildum. Matur og drykkjarvörur hækkuðu um 0,55% sem má að mestu rekja til verðhækkunar á kjöti. Síðustu mánuði fór að hægja á verðhækkunum á matvörum eftir miklar hækkanir fyrr á árinu.
„Flugverð hækkar um 1,1% en galdþrot Play hefur því ekki haft mikil áhrif á flugverð í október eins og Hagstofan mælir það. Einungis hluti af mælingunni fór fram eftir gjaldþrot Play þar sem flugverð sem notað er í útreikningum í október var mælt í ágúst, september og október. Áhrifin munu því koma betur í ljós næstu mánuði en við teljum áhrifin ekki veruleg,“ segir í greiningunni.
Íslandsbanki telur að líklegt sé að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum við næstu vaxtaákvörðun, þrátt fyrir vaxandi mótbyr í útflutningsgreinum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
