Síðustu daga hafa ýmsir greiningaraðilar tjáð sig í fjölmiðlum um að líkur séu á vaxtalækkun 19. nóvember næstkomandi. Í ljósi nýrrar verðbólgumælingar, þar sem verðbólgan mælist nú 4,3%, óvissu í kjölfar vaxtamálsins og áforma ríkisstjórnarinnar um að slá aðhaldi í ríkisrekstri á frest eru greiningaraðilar nú óvissari en áður. Þar að auki eru nokkrir kjarasamningar lausir um þessar mundir og von er á kjarasamningsbundnum hækkunum um næstu áramót í tengslum við þá kjarasamninga sem undirritaðir voru á síðasta ári.
Í samtali við Morgunblaðið segir Gunnar Erlingsson, forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Arion banka, það vonbrigði að í nýjum húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar sé slegið af borðinu að herða frekara aðhald í ríkisrekstri, að svo stöddu. „Þetta setur Seðlabankann í snúnari stöðu en ella,“ segir Gunnar.
Spurður hvernig aðgerðapakkinn horfi við honum segir Gunnar að í honum séu bæði jákvæðir og neikvæðir þættir. „Aðgerðapakkinn slær mig fljótt á litið þannig að hann ýti undir eftirspurn til skamms tíma,“ segir Gunnar. Hann bætir við að til langs tíma sé jákvætt að sjá áform um nýja byggð sem eigi að rísa í Úlfarsárdal og að ríkið hyggist selja eignir.
Varðandi líkur á vaxtalækkunum á næstunni segir Gunnar að hann telji að líklegt sé að Seðlabankinn taki sér tíma í að meta stöðuna.
„Eins og staðan er núna finnst mér líklegt að Seðlabankinn vilji bíða og sjá og meta áhrifin af öllu kringum vaxtamálið, sjá niðurstöður fleiri dómsmála, og auðvitað sjá verðbólguna hjaðna hraðar og því sé nóvemberlækkun ólíklegri, sér í lagi í ljósi verðbólgutalnanna.“
Gunnar bendir þó á að líkur séu á því að vaxtalækkanir á næsta ári verði hraðar um leið og þær byrja.
„Það virðist vera vilji stjórnvalda að draga úr vægi verðtryggðra neytendalána, slíkt ætti að vinna með Seðlabankanum og gæti kallað á lægri stýrivexti en ella. En auðvitað þarf verðbólgan og verðbólguhorfur að batna, það er nú stóra málið á endanum,“ segir Gunnar að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
