Skattgreiðslur íslenskra fjármálafyrirtækja í formi þriggja sértækra skatta, sem ekki eru lagðir á aðrar atvinnugreinar hér á landi, námu 17,7 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtri álagningu Skattsins á lögaðila. Því til viðbótar greiða fjármálafyrirtæki og aðrir eftirlitsskyldir aðilar fjármálaeftirlitsgjald og gjald vegna reksturs Umboðsmanns skuldara sem ráðgert er að nemi saman um 3,7 milljörðum á þessu ári. Alls eru því sértækir skattar á innlenda fjármálastarfsemi um 21,4 milljarðar króna á þessu ári.
Þar með hafa íslensk fjármálafyrirtæki að núvirði greitt um 277 milljarða króna í þrjá sérstaka skatta, sem ekki eru lagðir á aðrar atvinnugreinar hér á landi, frá því þeir voru fyrst lagðir á árið 2010 samkvæmt tölum sem Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa tekið saman. Þar af nema skattgreiðslurnar síðastliðinn áratug um 192 milljörðum króna að núvirði. Sértæku skattarnir þrír leggjast ofan á laun, hagnað og skuldir íslenskra fjármálafyrirtækja.
Í vikunni var áratugur liðinn síðan tilkynnt var á blaðamannafundi, þann 28. október 2015, að náðst hefði samkomulag um svokölluð stöðugleikaframlög slitabúa föllnu bankanna. Í kjölfar greiðslu stöðugleikaframlaganna til ríkisins var áætlað að ríkissjóður hefði endurheimt beinan kostnað af endurreisn fjármálakerfisins og gott betur samkvæmt skýrslum frá bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Ásgeiri Jónssyni, nú seðlabankastjóra, og Hersi Sigurgeirssyni, prófessor í fjármálum.
„Ein meginröksemdin fyrir hinni upphaflegu sértæku skattlagningu á íslensk fjármálafyrirtæki var að endurheimta kostnað sem féll á ríkið við endurreisn efnahagslífsins frá árinu 2008. Skattarnir hafa haldist við lýði þrátt fyrir að sú röksemd eigi ekki lengur við,“ segir Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri SFF.
„Ekkert hinna norrænu landanna hefur gengið jafn langt í sértækri skattlagningu á fjármálastarfsemi og eru til að mynda engir sérstakir bankaskattar í Finnlandi,“ bendir Heiðrún á. „Þá nema hefðbundnar skattgreiðslur innlendra fjármálafyrirtækja einnig umtalsverðum fjárhæðum, enda hafa heildarskattgreiðslur þeirra verið verulega umfram það sem ætla má frá til að mynda fjölda starfandi í greininni.“
Beinar tekjur ríkisins af eignarhaldi hafa verið 570 milljarðar síðasta áratug. Meðal eigna sem ríkið fékk í sinn hlut við stöðugleikaframlögin í árslok 2015 var allt hlutafé í Íslandsbanka. Sölu eignarhlutar ríkisins í bankanum lauk í maí síðastliðnum þar sem 31 þúsund Íslendingar keyptu megnið af þeim 91 milljarðs hlut sem ríkið bauð til sölu.
Síðastliðinn áratug hefur ríkið selt eignarhluti í Íslandsbanka og 13% eignarhlut í Arion banka fyrir um 258 milljarða króna að núvirði. Þá hefur ríkið fengið um 312 milljarða króna í arð að núvirði frá fjármálafyrirtækjum sem ríkið á eða hefur átt eignarhluti í síðastliðinn áratug. Ríkissjóður er áfram eigandi stærsta fjármálafyrirtækis landsins, Landsbankans, en eigið fé bankans nemur 335 milljörðum króna.
Greinina í heild sinni má lesa í Morgunblaði dagsins.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
