Kauphöll Íslands fagnar 40 ára afmæli á þessu ári. Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, eða Kauphallarinnar, er af því tilefni í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum þar sem hann ræðir um sögu Kauphallarinnar og framtíðarsýn hennar. Þá fer hann einnig yfir feril sinn hjá Kauphöllinni sem spannar um 23 ár og nefnir stærstu augnablikin og áskoranirnar í uppbyggingu hennar. Tækniframfarir og gervigreind er eitt af því sem margir stjórnendur horfa til um þessar mundir.
Spurður hvort Kauphöllin sé farin að innleiða slíkar lausnir segir Magnús að Nasdaq, sem alþjóðlegt fyrirtæki í fremstu röð, hafi þegar stigið nokkur skref á þessu sviði.
„Einn af kostunum við að vera hluti af svona framúrskarandi alþjóðlegu fyrirtæki er að við fáum aðgang að þeirri þróun sem þar á sér stað,“ segir hann. „Í Bandaríkjunum er gervigreind til dæmis þegar notuð í viðskiptakerfinu, meðal annars í tilboðsgerð. Þetta er orðið raunverulegur hluti af starfseminni þar.“
Hann segir að næstu skref á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum lúti að því að nýta tæknina til að bæta þjónustu við viðskiptavini. „Ég sé fyrir mér að við munum nýta gervigreind sérstaklega til að gera ferla einfaldari og skilvirkari, til dæmis þegar félög skrá bréf sín. Það eru þegar í gangi verkefni innan Nasdaq á Norðurlöndunum sem miða að því að einfalda skráningarferlið.“
Magnús bendir líka á að gervigreind sé þegar farin að nýtast í öðrum vörum Nasdaq. „Við höfum verið að kynna nýjar lausnir á sviði stjórnarhátta, þar sem gervigreind er hluti af aðgerðum sem fyrirtæki nota nú þegar. Við fengum nýlega erlenda kollega til að kynna slíkar lausnir hér á Íslandi, og við sjáum mikinn áhuga á því. Þetta er því ekki bara framtíðarmúsík, þetta er þegar orðið að veruleika á ákveðnum sviðum.“
Magnús segir þetta snúast fyrst og fremst um að styrkja þjónustuna og bæta upplifun viðskiptavina.
„Það er margt að gerast á þessum vettvangi og við erum að fylgja þróuninni hratt eftir. Gervigreindin er að verða mikilvæg í því að auðvelda ferla og bæta upplýsingaflæði, og ég tel að hún muni skipa æ stærri sess í starfsemi okkar á komandi árum.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
