Anna Margrét Gunnarsdóttir, ráðgjafi í samskiptum og almannatengslum og eigandi Altso, segist aldrei setja sér nein nákvæm markmið því lífið komi sífellt á óvart og örlögin sjái um rest.
Anna Margrét er fædd árið 1987 og uppalin í Reykjavík, en ólst mestmegnis upp í 101. Tungumál hafa ávallt verið henni hugleikin og hún hefur lagt mikla rækt við þau í gegnum árin. Árið 2005-2006 fór hún í skiptinám til Paragvæ í Suður-Ameríku og lærði þar spænsku af miklum eldmóði. Þótt málfræðin hafi ekki alltaf verið í forgangi tileinkaði hún sér bæði þykkan hreim og skondinn orðaforða heimamanna, sem hefur jafnvel leitt til þess að Spánverjar fá hroll þegar þeir heyra hana tala.
Hvernig nálgast þú stefnumótun eða langtímamarkmið?
Ég set aldrei nein nákvæm markmið eins og að ég ætli að vera í einhverju ákveðnu starfi, með ákveðna ábyrgð eða hjá ákveðnu fyrirtæki innan einhvers tímaramma. Einfaldlega því ég er ekki með nógu gott hugarflug, en lífið kemur sífellt á óvart og örlögin sjá um rest. Þess í stað hef ég bara sett tvær kröfur á störfin eða verkefnin sem ég sækist eftir; í fyrsta lagi að það sé eitthvað nýtt svo ég læri meira og bæti við mig þekkingu og í öðru lagi að mér finnist það dálítið óþægilegt – því það þýðir að ég muni styrkja mig meira heldur en ef ég tæki eitthvað þægilegt. Og segja svo bara já við nánast öllu sem hljómar spennandi.
Hefur þú einhvern tíma farið í gegnum verulega krísu í starfi? Hvernig tókst þú á við hana?
Ég átti mjög erfitt með að bæði byrja hjá H&M og síðan hætta þar. Fyrstu árin glímdi ég við mikinn sjálfsefa og var stanslaust með hugann við að þessi gullnu tækifæri gætu horfið við minnstu mistök. Vissulega orsakaði það að ég lagði ótrúlega hart að mér og fékk fyrir það hrós og stöðuhækkanir. En það var þungur baggi að bera og ég var harðari við sjálfa mig en nokkur yfirmaður myndi dirfast. Eftir mikla sjálfsvinnu og dálitla fjarlægð vegna fæðingarorlofs áttaði ég mig svo á því að ég hafði vaxið, dafnað og þróast umfram það sem H&M hafði að bjóða – ótrúlegt en satt. Það er auðvelt að enda eins og kanarífugl í gullbúri hjá stóru og alþjóðlegu fyrirtæki og margir gera það, en ég einsetti mér að rífa bara plásturinn og nýta allt sem ég lærði hjá H&M til að koma mínu eigin fyrirtæki af stað. Það var erfitt tímabil en gjöfult líka og ég sé ekki eftir neinu.
Hver er mesta mýta eða misskilningur sem fólk hefur um þitt starf eða atvinnugrein?
Að samskiptamál og þá sérstaklega almannatengsl snúist um „að plögga“, s.s að redda umfjöllun og eiga helst inni greiða hjá blaðamönnum um allan bæ til að geta fengið nánast hvað sem er í kosmósið. Það er að mínu mati smækkun á flókinni vinnu sem krefst mikillar þekkingar, reynslu og næmni á samhengi og þróun mála. Samskipti við fjölmiðla og hvað vekur áhuga þeirra er eitt af lykilþáttunum og það er vandmeðfarið. Almannatengsl snúast ekki bara um að hringja í vin, annars væri ég nú bara hætt að vinna og komin á þægileg eftirlaun ef starfið væri svo auðvelt.
Hvernig byrjarðu daginn þinn?
Ég er nýbyrjuð að lesa og fylgja eftir bók sem heitir The Artist’s Way eftir Juliu Cameron. Þar skuldbindur maður sig til að byrja hvern dag á að skrifa niður allar hugsanir sem fylla tvær blaðsíður. Þú mátt ekki gera neitt fyrr en þú ert búin að skrifa. Svo ég ligg í hnipri eins og rækja og klóra eitthvað óskiljanlegt niður á blað áður en ég grátbið um kaffibolla. Ég myndi ekki endast í þessu ef vanafasti maðurinn minn hefði ekki farið með mér í þessa vegferð. Við erum nýbyrjuð en þetta er ótrúlega áhugavert og ég finn mun á mér. Það er gott að tappa af og tæma hugann af alls konar hugsunum áður en maður heldur af stað út í daginn.
Hvað finnst þér fólk almennt ekki vita um þig?
Ég er einhvers konar introvert en endaði í fagi fyrir extrovert manneskju. Ég hef gert það að atvinnu að tala við alls konar fólk, sjá tengingar og tengsl eða koma mér eða mínu á framfæri. Og vinnuviðburðir eru minnsta mál í heimi. En ég er ekkert partíljón, er heila eilífð að klára eitt vínglas og félagslega batteríið mitt tæmist fljótt. Finnst voða gaman að klæða mig upp fyrir boð, en endist svo illa í boðinu. Í veislum er ég best geymd í uppvaskinu, ætli ég sé ekki draumur hvers gestgjafa?
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
