Þegar húsið brennur er betra að standa fyrir utan

Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku Digital Assets
Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri Visku Digital Assets Ljósmynd/Aðsend

Aðsend grein - Birtist í ViðskiptaMogganum sl. miðvikudag

Evrópa logar. Ekki í bókstaflegum skilningi, heldur efnahagslega. Þýska iðnveldið, sem var einu sinni drifkraftur álfunnar, er að molna innan frá. Frakkland er hlaðið skuldum og velferðarkerfið tæknilega gjaldþrota. Grunnstoðir Evrópu, iðnaður og velferð, eru báðar að gefa sig samtímis.

Þrátt fyrir þetta heyrast hér á landi raddir sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið. En að ganga inn í samband sem sjálft stendur í björtu báli væri eins og að hlaupa inn í brennandi hús og vona að hitinn verði minni fyrir innan.

Orkupólitík Þýskalands hefur reynst dýrkeypt. Eftir lokun kjarnorkuvera og orkuskipti sem byggjast á vind- og sólarorku hefur raforka orðið ein sú dýrasta í heiminum. Þetta hefur grafið undan samkeppnishæfni þýskra fyrirtækja og sett útflutningsdrifið hagkerfi landsins í hættu.

Þýska reglufestan, sem lengi var lykillinn að árangri, hefur nú orðið hindrun. Landið hefur fest sig í stjórnsýslu og regluverki sem gerir það nánast ófært um að bregðast við nýjum efnahagslegum veruleika.

Staðan í Frakklandi, sem er næststærsta hagkerfi Evrópu, er síst betri. Opinberar skuldir hafa farið langt yfir 110 prósent af landsframleiðslu og vaxtabyrðin vex hratt. Samhliða skuldasöfnun ríkisins hefur pólitískur óstöðugleiki aukist verulega. Ríkisstjórnir hafa fallið ítrekað á síðustu misserum, og mótmæli, verkföll og átök á götum borga eru orðin fastur fylgifiskur franskra stjórnmála. Það er orðin viðtekin sjón að bílar logi á götum Parísar í mótmælum gegn ríkisstjórninni.

Vandi Evrópu er ekki lengur aðeins mældur í hagvexti og skuldum heldur í sjálfu grunnkerfinu sem álfan hefur byggt á: velferðinni. Í Þýskalandi hefur kanslarinn Friedrich Merz viðurkennt opinberlega að þýska velferðarkerfið sé ekki lengur fjárhagslega sjálfbært.

Frakkland er í enn verri málum. Þar er velferðarkerfið tæknilega gjaldþrota. Opinberar skuldir eru yfir 110 prósent af landsframleiðslu, en samkvæmt Eurostat nema ófjármagnaðar skuldbindingar lífeyriskerfisins 300 til 400 prósentum af landsframleiðslu. Þegar ávöxtunarkrafa franskra ríkisskuldabréfa er orðin hærri en þeirra grísku þá er ljóst að fjárfestar hafa misst trú á getu landsins til að standa undir eigin kerfi.

Ísland stendur utan þessa vanda. Við búum yfir hreinni orku og sveigjanlegu hagkerfi sem getur aðlagast. Við höfum aðgang að mörkuðum Evrópu í gegnum EES-samninginn en höldum jafnframt í sjálfstæða peningastefnu, eigin gjaldmiðil og möguleika til að taka ákvarðanir út frá okkar hagsmunum.

Innganga í ESB gæti vissulega þýtt lægra vaxtastig hér á landi en það er engin töfralausn. Þrátt fyrir að Ísland hafi haft hærra vaxtastig en flest Evrópuríki á undanförnum árum, hefur kaupmáttur Íslendinga vaxið mun hraðar en hjá helstu aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þýskir og franskir launamenn hafa séð raunlaun sín dragast saman, á meðan íslensk heimili hafa notið mikillar kaupmáttaraukningar og atvinnustigs sem er með því hæsta í Evrópu.

Að ganga inn í Evrópusambandið núna væri ekki leið til að tryggja stöðugleika heldur leið til að flytja inn óstöðugleika annarra. Við myndum taka upp evruna og missa stjórn á peningamálum okkar á sama tíma og sambandið sjálft glímir við dýpstu efnahagsáskoranir í áratugi.

Evrópa stendur á krossgötum. Þýskaland er að missa iðnaðinn, Frakkland er skuldugt upp fyrir haus og sambandið í heild er að missa áttirnar. Það er engin tilviljun að fjögur ríki Evrópu sem standa utan Evrópusambandsins, Sviss, Noregur, Ísland og Liechtenstein, eru einmitt þau lönd sem eru með hæstu tekjur á mann í álfunni. Sjálfstæði og sveigjanleiki hafa reynst betri uppskrift en miðstýring og skuldir.

Við ættum að nýta okkar styrkleika, ekki fórna þeim. Ísland á ekki að hlaupa inn í brennandi hús.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK