Hið ljúfa líf er vikulegur lífstílsdálkur ViðskiptaMoggans
Indverskir viskíframleiðendur hafa heldur betur verið að gera góða hluti á undanförnum árum og náð að raka til sín verðlaunum í alþjóðlegum viskíkeppnum.
Indverska viskíbyltingin er nýbyrjuð en eftir því var tekið árið 2010 þegar viskíspekúlantinn Jim Murray kvað upp þann dóm að indverska Amrut Fusion-viskíið væri þriðja besta viskí heims það árið, og varð Amrut óstöðvandi upp frá því.
Það var árið 2020 að ég rakst loksins á flösku af Fusion, í stórmarkaði austur í Istanbúl, og líkt og kom fram í pistli sem ég skrifaði hér í ViðskiptaMogganum féll ég kylliflatur fyrir þessum afburðagóða drykk.
Næst fjallaði ég um Amrut Peated Indian árið 2021, sem einfaldast er að lýsa sem reyktri útgáfu af Fusion. Svo kom röðin að Peated Indian Cask Strength árið 2024, sem reyndist svo öflugt og bragðmikið viskí að ekki var annað hægt en að þynna það út með vatni, frekar en að drekka eitt og sér eins og ég er vanur að gera.
En á meðan Amrut arkaði jafnt og þétt upp á hæsta tind viskíheimsins birtist ný hetja á indversku viskísenunni, og virðast viskíunnendur að minnsta kosti jafnhrifnir af Indri og þeir eru af Amrut.
Í nýlegri ferð til Bandaríkjanna kíkti ég á úrvalið hjá stórgóðu vín-stórverslanakeðjunni Total Wine og mér til mikillar gleði fann ég þar loksins flösku frá Indri.
Árangur Indri er ekki síst merkilegur í ljósi þess hvað fyrirtækið er ungt. Ræturnar má rekja til vínheildsölu sem stórhuga feðgar í Punjab settu á laggirnar árið 1953 en bruggunin hófst ekki fyrr en árið 2007, undir merkjum Piccadily, og var fyllt á fyrstu tunnurnar árið 2010. Saga Indri-vörumerkisins hefst síðan ekki fyrr en árið 2022, og strax árið 2023 var Diwali-hátíðarútgáfa af Indri valin besta viskí heims í Whiskies of the World-keppninni. Síðan þá hefur Indri hlotið hér um bil öll þau viskíverðlaun sem finna má og telst mér til að Piccadily framleiði núna um 11 útfærslur af Indri, auk þess að brugga romm og vodka.
Flaskan sem mér áskotnaðist er Indri Trini, sem dregur nafn sitt af því að viskíið er látið liggja í þrenns konar tunnum: fyrst í gömlum búrbon-tunnum, þá tunnum undan frönsku víni og loks í sérrítunnum.
Um er að ræða einmöltung og ekki hægt að ráða annað af þeim upplýsingum sem Indri veitir en að í framleiðsluna hafi aðeins verið notað lífrænt ræktað indverskt hágæðabygg. Fer bæði byggræktunin og bruggunin fram við rætur Himalajafjalla, og segir framleiðandinn að ekkert grunnvatn sé sótt úr jörðu til að vökva byggakrana, né jarðefnaeldsneyti notað við sjálfa bruggunina heldur er hismið sem fellur til hjá bygg- og hrísgrjónabændum nýtt sem eldsneyti.
Ekki er ljóst hversu lengi viskíið fékk að þroskast en það er í senn helsti kostur og ókostur þess að framleiða viskí á Indlandi að hátt hitastigið veldur því að hröð uppgufun á sér stað þegar áfengið er komið í tunnur en að sama skapi þroskast viskíið mun hraðar en í köldu lagerhúsunum í Skotlandi. Viskíð þarf því ekki að lúra lengi í tunnunni til að verða blæbrigðaríkt og spennandi, og raunar skilst mér að indverskir bruggmeistarar verði að fara varlega vegna þess hve hratt vökvinn getur umbreyst í hitanum og skemmst ef ekki er farið varlega.
Þökk sé vín- og sérrítunnunum er Indri Trini í sætari kantinum, sem ég kann vel að meta. Það má greina vott af ananas í anganinni, telauf og vanillutóna, en þó ekki í svo háu hlutfalli að það geri drykkinn skrítinn – þetta er fantafínt viskí, bara með þennan skemmtilega hitabeltisblæ. Bragðið er rökrétt framhald af anganinni og hægt að greina rjómakaramellu og lauflétta eik í undirlaginu. Bragðið er hæfilega þétt, hæfilega heitt og hæfilega piprað, og eftirbragðið tiltölulega milt en langlíft.
Ég paraði viskíið við grillborgara og franskar, eins og ég er vanur að gera, og varð ekki fyrir vonbrigðum. Skemmtileg blæbrigði koma fram en Indri Trini er engu að síður frískandi og tiltölulega létt viskí, og gæti hentað í hanastél þó að það njóti sín líka vel eitt og sér í glasi. Flaskan kostaði ekki nema 55 dali hjá Total Wine, sem er gjafverð fyrir viskí í þessum gæðaflokki og hugsa ég að Indri kæmist alveg upp með að tvöfalda og jafnvel þrefalda hjá sér verðið.
Fyrir mína parta þá mun ég ekki hugsa mig tvisvar um næst þegar ég rekst á Indri-flösku til sölu, og get ekki beðið eftir að smakka fleiri útfærslur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
