Það er engum blöðum um það að fletta að áhugi almennings á fjárfestingum hefur aukist verulega á undanförnum árum. Spurður hvort sjá megi í tölum Kauphallarinnar að smærri fjárfestar séu farnir að láta til sín taka á markaðnum, segir Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar að breytingin hafi verið gífurleg á örfáum árum.
„Það sem gerðist í upphafi covid var alveg einstakt. Við fórum mjög hratt upp í fjölda einstaklinga sem tóku þátt í hlutabréfamarkaði,“ segir hann. „Fyrst var það útboð Icelandair, síðan Íslandsbanka, og fleiri fylgdu í kjölfarið. Á nokkrum mánuðum fór fjöldinn úr því að vera um 8.000 einstaklingar sem áttu hlutabréf í landinu í um fjórfalt það. Í framhaldinu hélst fjöldinn lengi vel í kringum 30.000, en með útboði Íslandsbanka fór hann upp í nærri 47.000. Núna erum við að tala um tæplega 45.000 einstaklinga.“
Hann segir þetta vera afar jákvæða þróun, sérstaklega í ljósi þess að vaxtastig hafi verið mjög hátt á sama tímabili.
„Það er mikið fjármagn á bankareikningum heimilanna. Þannig að þó að fjöldinn hafi aukist svona mikið, þá er ég sannfærður um að hann eigi eftir að aukast enn frekar á næstu árum. Við munum sjá bæði fleiri einstaklinga taka þátt og þá sem þegar eiga hlutabréf verða virkari í viðskiptum.“
Magnús leggur áherslu á mikilvægi þessarar þróunar fyrir markaðinn í heild.
„Við verðum alltaf að hugsa hlutabréfamarkaðinn sem vettvang sem styður við efnahagslífið, að hann styðji við hagvöxt, hjálpi nýsköpunarfyrirtækjum að dafna og auki velsæld í samfélaginu. Þátttaka einstaklinga er lykilatriði í þessu samhengi. Hún býr til virkari markað með meiri seljanleika og betri verðmyndun. Og hún veitir nýsköpunarfyrirtækjum þann stuðning sem þau þurfa, því einstaklingar eru hlutfallslega líklegri en stofnanafjárfestar til að fjárfesta í vaxtarfyrirtækjum. Það er því bein tenging á milli virkari þátttöku almennings og möguleika vaxtarfyrirtækja til að vaxa. Á sama tíma fær almenningur betri tækifæri til að ávaxta sparifé sitt og taka beinan þátt í atvinnulífinu.“
Spurður hvort stjórnvöld geti gert eitthvað til að styðja enn frekar við þátttöku almennings, nefnir Magnús tvö atriði. „Í fyrsta lagi þurfum við að horfa á skattalega hvata. Það eru vissulega til smávægilegir hvatar í dag, en ekkert sem kemst í hálfkvisti við það sem gerist í löndum sem við berum okkur saman við. Í Svíþjóð er til dæmis mjög sterkt kerfi sem hefur gengið vel um áraraðir. Við höfðum líka sterkt kerfi hér á landi fram til aldamóta og það virkaði vel. Nú nýlega hefur Evrópusambandið lagt til að aðildarríki setji á svokallaða sparnaðar- og fjárfestingarreikninga, sem eru í raun byggðir á sænsku fyrirmyndinni. Það yrði risaskref ef Ísland tæki slíkt upp.“
Í öðru lagi telur hann að mikilvægt sé að einstaklingar fái aukið frelsi til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði. „Við búum við kerfi þar sem lífeyrissjóðirnir eru mjög stórir og hafa byggt markaðinn mikið upp, sem er jákvætt. En það væri líka mikilvægt að dreifa ákvarðanatökunni meira til einstaklinga. Ef þeir fengju að fjárfesta sjálfir fyrir hluta af viðbótarlífeyrissparnaði sínum, kjósi þeir svo, hvort sem það væri í sjóðum eða jafnvel einstökum hlutabréfum, myndi það styrkja markaðinn gríðarlega. Þetta væri hægt að tengja saman við sparnaðar- og fjárfestingarreikningana sem ég nefndi. Þannig mætti gera fólki kleift að nýta hluta af sparnaði sínum á þennan hátt.“
Slík breyting myndi ekki aðeins styrkja beina þátttöku einstaklinga, heldur einnig verðbréfasjóði, segir Magnús. „Í dag eru íslenskir hlutabréfasjóðir tiltölulega litlir. Það væri mjög hollt fyrir markaðinn ef þeir yrðu stærri og öflugri. Þannig að með því að gefa einstaklingum meira svigrúm með viðbótarlífeyrissparnaðinn gætum við styrkt bæði beinan hlutafjármarkað og sjóðakerfið í leiðinni.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
