Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. nóvember.
Sitt sýnist hverjum um ástandið á verðbréfamörkuðum og æ oftar má heyra áhyggjuraddir vara við því að bóla sé að blása út og geti sprungið hvenær sem er.
Magnús Sigurðsson vaktar markaðinn vel, en hann býr í New York og stýrir þar fjárfestingasjóðnum og tæknifyrirtækinu Systematic Ventures. Magnús er orðinn reglulegur gestur á síðum Morgunblaðsins en undanfarin ár hefur hann, með nokkurra missera millibili, rætt við blaðið um hvert markaðir stefna og hefur yfirleitt haft á réttu að standa.
Gaman er að láta það fljóta með að Magnús, sem útskrifaðist með meistaragráðu í fjármálum frá MIT, er í dag fremstur í sínum flokki í árlegri fjárfestakeppni vestanhafs, The United States Investing Championship, en 579 fjárfestar taka þátt í keppninni í þetta skipti. Höfðu fjárfestingar Magnúsar fyrir keppnina skilað 99% ávöxtun þegar níu mánuðir voru liðnir af árinu.
Spurður hvort hann telji einhvern fót fyrir tali um bólu á bandarískum verðbréfamarkaði segir Magnús að sú jákvæða breyting hafi orðið á markaðinum að hækkanirnar hafa að undanförnu náð fyrir stærri hóp fyrirtækja eftir að hafa aðallega verið bundnar við stóru tæknirisana um nokkuð langt skeið. „Það er ágætis þumalputtaregla að þegar allir eru að tala um bólu á markaðinum, þá er ekki bóla. Að sama skapi væri tilefni til að hafa áhyggjur ef enginn væri að tala um bólumyndun og öllum þætti ekkert nema bjartir tímar fram undan.“
Magnús bendir á að það sé innistæða fyrir hækkun hlutabréfaverðs vestanhafs því hagnaður fyrirtækja virðist vera á uppleið og vísbendingar um að tækniframfarir séu að leiða til aukinnar skilvirkni. „Það má skýra hærra hlutabréfaverð með því að fyrirtækin eru einfaldlega arðbærari og reksturinn betri en áður.“
Mikið tal um bólumyndun segir Magnús að megi að vissu leyti skýra með því að fjölmiðlaumhverfið sé nú sem aldrei fyrr drifið áfram af æsifréttum og smellubeitu. „Menn virðast líka keppast um að vera neikvæðir, því neikvæðni virðist orðin til marks um frumlega og djúpa hugsun. Markaðurinn færist vissulega ekki alltaf upp á við, og kannski koma 8-10 góð ár og svo eitt eða tvö slæm ár inn á milli, en markaðurinn réttir úr kútnum og þeir sem láta neikvæðu raddirnar halda aftur af sér græða ekkert á meðan,“ segir hann. „Það gæti vel gerst að það komi 5-15% leiðrétting, en það yrði þá innan þess samhengis að markaðurinn er í sókn heilt á litið.“
Hvað ef gervigreindin er tekin út fyrir sviga? Er ekki markaðsverð fyrirtækja í þeim bransa búið að missa alla jarðtengingu? Og er ekkert til í því að margt virðist líkt með hlutabréfaverði tæknifyrirtækja nú og verðþróuninni í dot-com-bólunni sem sprakk með látum rétt fyrir aldamótin?
Magnús segir þann mun á netvæðingunni í kringum aldamótin og gervigreindarvæðingu í dag að innleiðing gervigreindar í atvinnulífinu hafi gengið mun hraðar fyrir sig en netvæðingin á sínum tíma. Þá byggðist netbólan mikið til á miklum væntingum til fyrirtækja sem enn voru á fyrstu stigum, með fáa notendur og litlar sem engar tekjur en drauma um mikla eftirspurn seinna meir. Þau fyrirtæki sem leiða þróun gervigreindar í dag eru aftur á móti með óheyrilega miklar tekjur og eru tilneydd að fjárfesta fyrir háar upphæðir til þess eins að halda í við eftirspurn sem nú þegar er til staðar.
Magnús tekur undir með blaðamanni að sumar tilraunir fyrirtækja til að auka skilvirkni með gervigreind hafi ekki gengið eins vel og til stóð, en hann bendir á að heilt á litið hafi tæknin greinilega bætt afköst og fyrir störf á borð við forritun séu áhrifin greinileg. Áætlar Magnús að forrit á borð við ChatGPT spari honum persónulega 5-6 klst. vinnu hvern einasta dag. „Þetta þýðir að fyrirtækin geta annaðhvort afkastað meiru með sama fjölda starfsmanna, eða minnkað hjá sér starfsliðið en viðhaldið sömu afköstum, og greinilegt hvaða áhrif það hefur á hagnaðarhlutfallið. Er líka greinilegt hvernig tækninni fleygir fram; fyrir ári var gervigreindin ágæt, en núna má segja að hún sé fáránlega góð í að leysa tiltekin verkefni.“
En verður þá ekki rót á vinnumarkaði og þar með ný vandamál eftirspurnarmegin í hagkerfinu? Magnús segir söguna kenna okkur að tæknibreytingar búi til ný störf og ný fyrirtæki sem meira en vega upp á móti þeim störfum sem glatast, og heilt á litið leiði aukin framleiðni til bættra lífskjara. Hins vegar geta tilteknir hópar átt erfiðara uppdráttar en aðrir, á meðan hagkerfið leitar jafnvægis: „Mér sýnist vandinn mestur fyrir ungt fólk á bilinu 25 til 35 ára. Þau skortir reynsluna til að geta náð góðri fótfestu á vinnumarkaðinum en á sama tíma er gervigreindin í vaxandi mæli að leysa af hendi mörg þau aðstoðarhlutverk sem unga fólkið var áður ráðið til að sinna.“
Ekki er hægt að ræða um markaðsmálin án þess að minnast á Trump. Eins og lesendur muna snöggkældust markaðir í vor þegar Trump tilkynnti hækkaða tolla á nær alla heimsbyggðina. Hlutabréfaverð náði fljótlega jafnvægi og virðast fjárfestar ekki jafnhvekktir og áður þegar kemur að uppátækjum Trumps. Magnús bendir á að flestir hafi núna lært að hótanir Trumps um ofurtolla eru umfram allt samningatæki og hefur útkoman alla jafna verið lægri tollar og hagstæðari viðskiptakjör. Magnús segir jafnframt að áhrif Trumps séu, þrátt fyrir allt, frekar lítil og gervigreind helsti drifkraftur markaðarins – sama hvað Trump segir eða gerir.
Að því sögðu telur Magnús ekki útilokað að vinnubrögð Trumps kunni að skaða tengsl Bandaríkjanna við umheiminn til lengri tíma litið. „Trump kemur úr fasteignageiranum þar sem það eina sem skiptir máli er næsti „díll“, en það sama er ekki að segja um alþjóðasamskipti.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
