Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði í dag um rúmlega 28% og lækkaði markaðsvirði fyrirtækisins um tæplega 88 milljarða og stendur nú í 221 milljarði. Eftir daginn í dag er Alvotech ekki lengur næst verðmætasta félagið sem er skráð í Kauphöllina, á eftir JBT Marel, heldur er komið í fjórða sæti á eftir viðskiptabönkunum Arion banka og Íslandsbanka.
Við lokun markaða fyrir helgi var gengi bréfa Alvotech 950 krónur á hlut. Í gær tilkynnti fyrirtækið að það hefði fengið svarbréf frá Lyfja og matvælaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) um að umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir lyfinu AVT05 yrði ekki afgreidd að svo stöddu. Miklar væntingar hafa verið bundnar við þróun þessa lyfs og er höggið því nokkuð.
Viðbrögð í morgun við opnun Kauphallarinnar létu því ekki á sér standa. Lækkuðu bréfin strax um 20-22% og stóð það fram á dag, en eftir klukkan 14 lækkuðu bréfin enn frekar og nam heildarlækkunin 28,42%. Fyrir daginn í dag var markaðsvirði Alvotech um 309 milljarðar króna, en eftir daginn eru þau metin á tæplega 221 milljarð og nemru lækkunin um 88 milljörðum króna. Samtals var velta með bréf félagins upp á 644 milljónir í dag.
Hlutabréf félagsins hafa lækkað mikið það sem af er þessu ári, en í byrjun árs stóð gengi þeirra í 1.840 krónum á hlut og fór hæst í 1.925 krónur á hlut síðar í janúar. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við, með nokkrum sveiflum þó. Með deginum í dag nemur heildar lækkun innan þessa árs 61.69%.
Í tilkynningu frá Alvotech í gær kom fram að FDA hefði ekki getað veitt markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir AVT05 í áfylltri sprautu og lyfjapenna fyrr en Alvotech hefur brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum sem eftirlitið veitti félaginu í lok úttektar á framleiðsluaðstöðunni í Reykjavík í júlí. AVT05 er fyrirhuguð hliðstæða við líftæknilyfið Simponi.
Tekjur af sölu á líftæknilyfinu Simponi í Bandaríkjunum á fyrri hluta ársins 2025 námu um 300 milljónum Bandaríkjadala, um 37,6 milljörðum króna. FDA hefur ekki veitt markaðsleyfi fyrir neinni hliðstæðu Simponi, sem er notað til meðferðar við ýmsum bólgusjúkdómum.