Hlutabréfaverð í Alvotech lækkaði mikið í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag, en í gær tilkynnti fyrirtækið að það hefði fengið svarbréf frá Lyfja og matvælaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) um að umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir lyfinu AVT05 yrði ekki afgreidd að svo stöddu.
Samtals lækkaði verð á bréfum í Alvotech um 21,05% í fyrstu viðskiptum upp á 34 milljónir.
Leiðir félagið lækkanir í Kauphöllinni, en Úrvalsvísitalan er niður um 2,83%. Önnur félög sem hafa lækkað er Sjóvá um 4,93% í 58 milljóna viðskiptum, Kaldalón um 4,48% í 55 milljóna viðskiptum og Íslandsbanki um 3,7% í 37 milljóna viðskiptum.
Í tilkynningu frá Alvotech í gær kom fram að FDA hefði ekki getað veitt markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir AVT05 í áfylltri sprautu og lyfjapenna fyrr en Alvotech hefur brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum sem eftirlitið veitti félaginu í lok úttektar á framleiðsluaðstöðunni í Reykjavík í júlí. AVT05 er fyrirhuguð hliðstæða við líftæknilyfið Simponi.
Tekjur af sölu á líftæknilyfinu Simponi í Bandaríkjunum á fyrri hluta ársins 2025 námu um 300 milljónum Bandaríkjadala, um 37,6 milljörðum króna. FDA hefur ekki veitt markaðsleyfi fyrir neinni hliðstæðu Simponi, sem er notað til meðferðar við ýmsum bólgusjúkdómum.