First Water, sem sérhæfir sig í sjálfbæru landeldi á laxi, hefur lokið hlutafjáraukningu upp á 3,5 milljarða króna. Fram kemur í tilkynningu að fjármögnunin marki tímamót í uppbyggingu félagsins, en nýir fjárfestar bætast nú í hluthafahópinn, þar á meðal þrír lífeyrissjóðir. Fjárfestingarfélagið Stoðir er áfram stærsti hluthafi.
Hlutafjáraukningin er liður í fyrsta áfanga af sex í umfangsmikilli uppbyggingu landeldisstöðvar í Þorlákshöfn. Félagið hefur tryggt sér samtals 39 milljarða króna í fjármögnun, 27 milljarða í hlutafé og 12 milljarða í lánsfé, frá Arion banka og Landsbanka.
Fram kemur einnig að First Water hafi þegar tekið í notkun átta 25 metra eldistanka og hafið vinnslu og útflutning á 5 kg slægðum laxi, sem er eftirsótt afurð á lykilmörkuðum félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Félagið er meðal þeirra fyrstu á heimsvísu til að framleiða og selja slíkan lax á landi.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, segir hlutafjáraukninguna mikilvægan áfanga í áframhaldandi uppbyggingu, haft er eftir honum í tilkynningu:
„Við höfum þegar selt um 2.200 tonn af hágæða landeldislaxi og viðtökur kaupenda hafa verið framar vonum. Þessi fjármögnun gerir okkur kleift að halda áfram að þróa stöðina við Laxabraut og styrkja sölustarfsemina enn frekar. Ég vil þakka núverandi og nýjum hluthöfum fyrir traustið.“
Ráðgjafi félagsins við hlutafjáraukninguna var ARMA Advisory.