Auðlindafyrirtækið Amaroq hefur í fyrsta sinn fundið sjaldgæfa jarðmálma á háum styrkleika.
Í tilkynningu kemur fram að jarðmálmarnir hafi fundist á Ilua pegmatítsvæðinu innan Nunarsuit-leyfisins, sem er staðsett í vesturhluta Gardar-svæðisins á Suður-Grænlandi.
Gardar-svæðið er talið hýsa allt að 20% af heildarmagni sjaldgæfra jarðmálma í heiminum, samkvæmt Sameiginlegu rannsóknarmiðstöðvar Evrópusambandsins (JRC). Þar eru einnig þekkt svæði sem geyma sjaldgæfa jarðmálma í miklu magni, s.s. Kvanefjeld, Motzfjeld og Tanbreez.
„Niðurstöður efnagreininga sýna að að meðaltali eru 27% þung (Heavy Rare-Earth) og 73% létt sjaldgæf jarðefni (Light Rare-Earth), þar af 21% lykilsegulmálmar (Nd, Pr, Dy og Tb). Fyrstu vettvangsrannsóknir benda til víðtæks pegmatítkerfis sem inniheldur sjaldgæfa jarðmálma sem kallar á frekari rannsóknir,” segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að svæðið sem um ræðir sé nokkrir metrar á breidd og nái yfir um fimm kílómetra með vísbendingum um margar samsíða sprungur sem Amaroq hyggst kortleggja nánar á rannsóknartímabilinu 2026 með könnunarborunum.
Nunarsuit-leyfið er hluti af Gardaq ApS, dótturfélagi Amaroq, og verða frekari niðurstöður úr rannsóknarverkefnum félagsins (utan gullrannsókna) kynntar síðar.
„Staðfesting á hágæða sjaldgæfum jarðmálmum (Rare Earth Elements) innan leyfissvæðis okkar eru afar jákvæð tíðindi og við erum mjög ánægð með þessar fyrstu niðurstöður. Þær marka jafnframt fyrstu skref Amaroq inn á svið sjaldgæfra jarðmálma í Grænlandi,” segir James Gilbertson, yfirmaður rannsókna hjá Amaroq, í tilkynningunni.
„Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að málmgrýtið virðist hýst í steind með lágu magni úraníum og „hefðbundinni’“ steindafræðilegri samsetningu. Við teljum að sjaldgæfu jarðmálmarnir séu að mestu bundnir við mónasít, sem auðveldar vinnslu þeirra með hefðbundnum aðferðum miðað við flóknari steindafræði sem finnst annars staðar í Suður-Grænlandi,” bætir hann við.
„Við hlökkum til að halda áfram með frekari rannsóknir og könnunarboranir á næsta ári og erum bjartsýn um að möguleikar Nunarsuit-svæðisins á sviði sjaldgæfra jarðefna geti skapað verulegt virði fyrir hluthafa, samhliða núverandi verkefnum okkar.“