Fjárfestingar- og sparnaðarfyrirtækið Spesía hefur lokið við 400 milljóna króna sprotafjármögnun sem mun nýtast til vöruþróunar og markaðssóknar.
Fram kemur í tilkynningu að fyrirtækið stefni að því að bjóða almenningi hagkvæmari og aðgengilegri leiðir til að spara og fjárfesta í erlendum verðbréfum, með áherslu á sjálfvirkni og litla yfirbyggingu.
„Gamla bankakerfið er að leysast upp og með nútímatækni getum við valdeflt almenning,“ er haft eftir Bergi Ebba, vaxtarstjóra Spesíu. „Það er mikil synd að fólk með ráðrúm til að spara geti ekki með einföldum og ódýrum hætti sett sparnaðinn í öruggt alþjóðlegt verðbréfasafn.“
Sparnaðarvörur Spesíu byggja á sjóðum sem fjárfesta í alþjóðlegum verðbréfum með mikilli áhættudreifingu. Lausnin er hönnuð til að vera einföld í notkun og veita betri kjör en hefðbundnir bankar.
Meðal þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboði Spesíu eru fjárfestingafélög sem eftirfarandi aðilar standa bak við: Guðmundur Fertram Sigurjónsson stofnandi Kerecis og Fanney Hermannsdóttir eiginkona hans, Margrét Guðmundsdóttir stjórnarmaður í Eimskip, Kristján G. Jóhannsson stjórnarformaður Hraðfrystihússins Gunnvarar og kona hans Inga S. Ólafsdóttir, Skúli Gunnar Sigfússon, kenndur við Subway og Halldór Friðrik Þorsteinsson stofnandi HF Verðbréfa, Keldunnar og Alfreðs.
„Það er afar hvetjandi að finna þennan mikla áhuga fjárfesta á Spesíu. Við kláruðum fjármögnunina á mettíma og sóttum meira fjármagn en upphaflega var lagt upp með. Við stofnuðum Spesíu til að búa til lausn sem okkur hefur lengi fundist vanta á Íslandi,“ er haft eftir Georg Lúðvíkssyni, forstjóra Spesíu í tilkynningu.