Hin gamalgróna veisluþjónusta Veislan á Austurströnd 12 á Seltjarnarnesi hefur verið tekin til gjaldþrotaskipta og er 500 fermetra húsnæði fyrirtækisins auglýst til sölu á fasteignavef mbl.is. Fasteignin ásamt öllu því lausafé sem er innanhúss selst saman samkvæmt auglýsingunni.
Veislan var stofnuð árið 1988 af Brynjari Eymundssyni matreiðslumeistara. Eigendaskipti hafa orðið í gegnum tíðina en síðast var félagið í eigu athafnamannanna Helga Hermannssonar og Jóhannesar Skúlasonar. Þeir ráku einnig TGI Fridays í Smáralind og Grillhúsið á Sprengisandi og Laugavegi 96, en eigandi staðanna, Tankurinn, var tekinn til gjaldþrotaskipta fyrr á þessu ári.
Skiptastjóri Veislunnar, Ólafur Björnsson, segir í samtali við Morgunblaðið að enn hafi engir sýnt áhuga á þrotabúinu. Lokauppboð verður 20. nóvember nk.
Hann segir að búið sé að lýsa kröfum upp á á annað hundrað milljónir króna. Þá segir hann að 300 milljóna króna veðskuldir hvíli á húsnæðinu. Arion banki á fyrsta veðrétt.
Ólafur segir að húsnæðið hafi verið verðmetið á 175 milljónir og innréttingar og tæki á fimmtán milljónir. Verðið sé því samtals 190 milljónir fyrir áhugasama.
Ólafur segir að húsnæðið hafi aðeins látið á sjá og þörf sé á einhverjum fjármunum inn í reksturinn til að uppfæra búnað og aðstöðu.
Spurður um ástæðu gjaldþrotsins segir Ólafur að bransinn sé greinilega frekar erfiður um þessar mundir og mögulega hafi menn keypt fyrirtækið of dýru verði og tekið of há lán.
Ólafur á von á því að bankinn leysi til sín þrotabúið ef ekki tekst að selja.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
