Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku segir að skuldabréf hafi verið ofseld í sumar. Ávöxtunarkrafa lengri bréfa hafi verið farin að nálgast 7% í byrjun ágúst og mjög hafði dregið í sundur með framvirkum vöxtum á markaði annars vegar og væntingum markaðsaðila um vaxtalækkanir hins vegar.
„Ég held því að jarðvegurinn hafi verið orðinn mjög frjór fyrir kröfulækkun. Síðan gerist tvennt. Í fyrsta lagi byrja að birtast mjög afgerandi teikn um að hagkerfið sé að hægja á sér og vaxtahorfur séu að batna; við fáum verðbólgumælingu vel undir væntingum í ágúst, veika þjóðhagsreikninga á öðrum fjórðungi, mjúkmála fundargerð frá peningastefnunefnd og fregnir um erfiðleika í ferðaþjónustu, álframleiðslu og lyfjaiðnaði,“ segir Hafsteinn.
Hann bætir við að vaxandi veikleikar í raunhagkerfinu geti aukið á áhættufælni fjárfesta, sem er yfirleitt neikvætt fyrir hlutabréfamarkaði en getur verið jákvætt fyrir öruggari fjárfestingarkosti eins og skuldabréf.
„Í öðru lagi sáum við erlenda aðila auka við skuldabréfastöður í ágúst og september, og það kæmi mér ekki á óvart miðað við veltutölur á markaðnum að sú þróun hafi haldið áfram í október, þótt hún sé kannski að snúast aðeins við núna á síðustu dögum. Markaðurinn hefur glímt við ákveðinn súrefnisskort á árinu og þess vegna getur nýtt innflæði hleypt töluverðu lífi í markaðinn, eins og við höfum séð í haust með aukinni þátttöku erlendra fjárfesta,“ segir Hafsteinn.
Spurður hvernig hann meti horfurnar á mörkuðum segir Hafsteinn að það sé mögulega að einhverju leyti búið að „kreista safann" úr skuldabréfamarkaði eftir mikla kröfulækkun síðan í ágúst.
„Það eru ennþá tækifæri á markaðnum, en ég held að skuldabréfafjárfestar þurfi að vera aðeins kresnari til að nýta þau núna en fyrir þremur mánuðum,“ segir hann.
Hafsteinn bendir á að íslensk hlutabréf hafi á heildina litið setið eftir í þessari hækkunarrispu sem flestir erlendir markaðir hafi tekið síðustu þrjú ár.
„Auðvitað skýrist það að einhverju leyti af háum vöxtum og tvísýnum horfum í útflutningi, en ég held að það sé full ástæða til að vera vakandi fyrir því hvar verðlagning kann að vera orðin of svartsýn og hvar kennitölusamanburðurinn við erlend félög sé að verða hagstæður.”
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
