Porsche stendur frammi fyrir miklum áskorunum í rekstri. Þrátt fyrir að hafa afhent yfir 212 þúsund ökutæki á fyrstu níu mánuðum ársins og skilað tekjum upp á 26,86 milljarða evra hefur rekstrarhagnaður nánast horfið. Hagnaðurinn fór úr yfir fjórum milljörðum evra á sama tímabili í fyrra í einungis 40 milljónir evra í ár, sem jafngildir 99% samdrætti. Þetta er eitt versta ár í rekstrarsögu Porsche.
Fyrirtækið hefur dregið úr rafvæðingu og frestað stórum verkefnum, sem hefur leitt til afskrifta og aukins kostnaðar. Veikari eftirspurn í Kína hefur einnig haft veruleg áhrif á reksturinn, þá hafa tollar í Bandaríkjunum kostað fyrirtækið um 700 milljónir evra á árinu.
Rekstrarframlegð hefur fallið úr 14,1% í aðeins 0,2%, sem þýðir að fyrirtækið er að selja bíla án þess að skila raunverulegum hagnaði. Porsche hyggst styrkja vörumerkið, einfalda framleiðslu og leggja meiri áherslu á tvinn- og bensínbíla til að endurheimta arðsemi. mj@mbl.is
