N1 hefur á síðustu misserum eflt teymi sitt með ráðningu sex kvenna sem allar koma með verðmæta reynslu og þekkingu úr ólíkum greinum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Markmiðið með ráðningunum er einna helst að styrkja stoðir fyrirtækisins enn frekar, samhliða vaxandi verkefnum í þjónustu, vörustjórnun og markaðsmálum.
Eva Lillý Bjarndal Einarsdóttir – deildarstjóri innkaupa- og vörustýringar
Eva Lillý hefur áratugareynslu frá 66°Norður þar sem hún leiddi framleiðslu, vörustýringu og rekstur verksmiðja fyrirtækisins í Lettlandi. Hún er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar meistaranám í forystu og stjórnun.
Halldóra Fanney Jónsdóttir – verkefnastjóri á markaðssviði
Halldóra Fanney kemur með mikla reynslu úr markaðsdeildum PLAY og Samkaupa, þar sem hún leiddi fjölbreytt verkefni og viðburði. Hún er með meistarapróf í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og B.A. í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
Lóa Jóhannsdóttir – deildarstjóri gæða- og innviðadeildar
Lóa kemur til N1 eftir tólf ár hjá Seðlabanka Íslands, þar sem hún starfaði bæði við hugbúnaðarþróun og verkefnastjórnun. Hjá N1 leiðir hún rekstur eldsneytisdælna, rafhleðslustöðva og mannlausra stöðva um land allt, auk þess að sinna gæða-, öryggis- og tjónamálum. Hún er með meistaragráðu í verkefnastjórnun og B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Árný Helgadóttir – forstöðumaður viðskiptaþróunar
Árný hefur yfir áratugarreynslu í stýringu stefnumótandi verkefna. Hún kom til N1 frá Orku náttúrunnar þar sem hún stýrði fjárfestingaverkefnum og leiddi umbætur á verkefnaferlum. Áður starfaði hún hjá Össuri í níu ár og sinnti þar leiðslu alþjóðlegra og stefnumótandi verkefna. Árný er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá University of Turin, B.S. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og IPMA C-vottun í verkefnastjórnun.
Sandra Dögg Einarsdóttir – fræðslustjóri
Sandra Dögg hefur víðtæka reynslu á sviði mannauðs- og fræðslumála, meðal annars frá Póstinum, Orkuveitu Reykjavíkur og COWI á Íslandi. Hún er með M.Sc. gráðu í mannauðsstjórnun frá EAE Business School í Barcelona og B.Sc. gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík, auk réttinda í sáttamiðlun.
Helga Þórðardóttir – verkefnastjóri á markaðssviði
Helga hefur sinnt fjölbreyttum störfum á sviði vörumerkja- og neytendamarkaðssetningar hjá Coca-Cola Europacific Partners og Nóa Síríus. Hún er með M.Sc. í Brand and Consumer Marketing frá Stockholm University og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.
Haft er eftir Magnús Hafliðasyni, framkvæmdastjóra N1 að ráðningarnar séu hluti af uppbyggingu.
„Ráðningarnar eru hluti af markvissri uppbyggingu N1 þar sem áhersla er lögð á að styrkja innviði, þróa þjónustu og efla faglega forystu í allri starfseminni. Það er því ómetanlegt að fá inn jafn öflugar og reynslumiklar konur á þessum tímapunkti. Þær spegla þann fjölbreytileika og metnað sem við viljum sjá í allri starfsemi okkar, hvort sem það er í fræðslu, markaðssetningu, vöruframboði eða innviðum,“ er haft eftir Magnúsi.