Ari Fenger forstjóri heildsölufyrirtækisins Nathan nefnir aðspurður, í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann, um hvernig neyslubreytingar í samfélaginu hafi áhrif á Nathan, mötuneyti sem dæmi. „Fyrir 25 árum var konseptið mötuneyti varla til hér á landi. Nú er það sjálfsagður hlutur á vinnustöðum og í skólum. Markaðurinn breytist og við fylgjum í humátt á eftir.“
Næst ber Cocoa-Puffs á góma, morgunkornið ljúffenga sem er ein af þekktari vörum sem Nathan flytur inn. „Í könnunum segist fólk ekki borða Cocoa-Puffs, en í raun er varan löngu orðin hluti af þjóðarsálinni. Það eru miklu fleiri sem borða morgunkornið en segjast gera það. Sölutölur sýna það,“ segir Ari og brosir.
Spurður um helstu áskoranir í rekstri síðustu misserin nefnir Ari launakostnað og annan rekstrarkostnað sem hafi hækkað mikið. „Fyrirtæki þurfa að ná framleiðnivexti til að standa undir því. Það að hagræða hefur alltaf verið fín mótvægisaðgerð í rekstri fyrirtækja, en nú er það nauðsyn. Þú verður að vaxa til að ná í skottið á kostnaðinum, annaðhvort með innri umbótum eða ytri vexti.“
Spurður um afleiðingar heimsfaraldursins sem lauk fyrir þremur árum segir Ari að tíminn í faraldrinum hafi verið krefjandi og nefnir seinkanir, hærri flutningskostnað og dýrari hráefni. „Við tókum á okkur hluta kostnaðar til að verja vörumerkin til lengri tíma. Birgðasöfnun og sveigjanleiki hjálpaði. Nú er meira jafnvægi, þó að sveiflur eins og í heimsmarkaðsverði á kakói hafi haft áhrif á margar vöruflokka.“
Ari segir áhugavert að hugsa til þess að vörumerki hafi ekki alltaf skipt miklu máli og segir sögu af því þegar afi hans Hilmar Fenger, þá rétt rúmlega tvítugur, hafi flutt til Manhattan í New York um miðja síðustu öld. Þar vann hann við að finna vörur fyrir Íslendinga og flytja til landsins. „Íslendinga vantaði bara mat og aðrar nauðsynjavörur. Því var allt flutt inn til landsins sem talið var að eftirspurn eða þörf væri á. Það gera sér ekki margir grein fyrir því að á þessum árum var byrjað að flytja inn mörg af þeim vörumerkjum sem eru heimilisvinir landsmanna í dag. Þetta er ástæðan fyrir því að hér á landi finnst talsvert meira magn af amerískum vörum en annars staðar á Norðurlöndunum. Herbergisfélagi og vinur afa elskaði til dæmis Cheerios og borðaði það alltaf í morgunmat. Þess vegna hafði afi samband við General Mills og fór að flytja inn Cheerios sem er okkar söluhæsta vara enn þann dag í dag,“ segir Ari.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
