Tilkynning frá OMX | 12.2.

Heimavellir hf.: Ársreikningur samstæðu 2017

Fréttatilkynning 12. febrúar 2018 - ársreikningur Heimavalla hf. fyrir árið 2017

Rekstrarhagnaður Heimavalla 2.716 milljónir kr. á árinu 2017

 * Leigutekjur á árinu 2017 námu 3.096 milljónum kr. (2016: 1.495 milljónir
 kr.) sem er ríflega tvöföldun frá fyrra ári.
 * Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 1.622 milljónum kr. (2016: 655
 milljónir kr.) sem er aukning upp á 967 milljónir kr. á milli ára.
 * Matsbreyting fjárfestingareigna nam 3.845 milljónum kr. (2016: 3.152
 milljónir kr.) sem er aukning um 693 milljónir kr. á milli ára.
 * Rekstrarhagnaður félagsins á árinu 2017 var 2.716 milljónir kr. í samanburði
 við 2.217 milljónir kr. árið áður.
 * Virði fjárfestingareigna í árslok 2017 var 53.618 milljónir kr. sem er
 aukning um 12.914 milljónir kr. á milli ára.
 * Eigið fé var 17.587 milljónir kr. í árslok 2017 (2016: 11.621 milljónir kr.)
 og var eiginfjárhlutfall félagsins 31,4%.
 * Vaxtaberandi skuldir námu 34.938 milljónum kr. í lok árs 2017 (2016: 27.483
 milljónir kr.).
 * Mikill vöxtur hefur einkennt starfsemi samstæðunnar og hélt sú þróun áfram á
 árinu 2017. Félagið tók 330 nýjar íbúðir í notkun á árinu og voru íbúðir
 þess þá alls orðnar um 2.000 í árslok.
 * Félagið hefur tryggt sér kaup á um 340 íbúðum sem koma í rekstur á þessu og
 næsta ári.
 * Stefnt er að skráningu félagsins í Kauphöll Íslands (Nasdaq Iceland) um
 mánaðarmótin mars/apríl nk.

Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri:

"Ég er sáttur við rekstrarniðurstöðu félagsins á árinu 2017. Félagið hefur vaxið
hratt og tekið yfir stór og krefjandi leigusöfn sem hefur gengið vel að samþætta
annarri starfsemi félagsins. Reksturinn styrktist verulega á síðasta ári sem
sést best á því að mánaðarleg velta hækkaði úr 230 milljónum króna á fyrsta
ársfjórðungi 2017 í 290 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi ársins. Þessi
veltuaukning skilaði sér í bættum rekstri og afkomu. Við teljum okkur í góðri
stöðu fyrir fyrirhugaða skráningu félagsins í Kauphöll."

Við horfum bjartsýn fram á veginn. Það er mikilvægt að geta boðið nýjar lausnir
og valkosti eins og staðan er á húsnæðismarkaði í dag. Við erum markvisst að
byggja upp leigumarkað þar sem fólk getur reitt sig á örugga langtímaleigu eins
og þekkist í nágrannalöndum okkar. Þannig viljum við stuðla að fjölbreyttari og
stöðugri húsnæðismarkaði á Íslandi. Áherslur félagsins verða þar sem þörfin er
mest, þar á meðal íbúðir fyrir eldri borgara, en við erum einnig að skoða leiðir
til að koma á markað litlum hagkvæmum leiguíbúðum sem mikil þörf er fyrir um
þessar mundir."

Um 340 nýjar íbúðir hjá Heimavöllum á þessu og næsta ári

Hluti af þeim 340 íbúðum sem koma til afhendingar hjá Heimavöllum á þessu og
næsta ári eru sérhannaðar fyrir eldri borgara. Þetta er nýjung hjá Heimavöllum
til að bregðast við  þörf á fjölbreyttari úrræðum í húsnæðismálum fyrir þennan
aldurshóp. Annars vegar er um að ræða 58 íbúðir í tveimur fjölbýlishúsum við
Boðaþing í Kópavogi, í nágrenni við þjónustu fyrir eldri borgara á vegum
Hrafnistu og Kópavogsbæjar. Hins vegar er um að ræða 18 íbúða fjölbýlishús fyrir
eldri borgara við Jaðarleiti, á nýjum byggingarreit sunnan við Útvarpshúsið í
Efstaleiti.

164 íbúðir í nýju hverfi við Hlíðarenda

Þá hafa Heimavellir fjárfest í 164 íbúðum í nýju hverfi við Hlíðarenda og kemur
félagið þar til móts við stóran hóp fólks sem hefur áhuga á að komast í öruggt
leiguhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði
tilbúnar til afhendingar á árinu 2019. Alls verða um sex hundruð íbúðir á
svæðinu  og er markmið skipulagsins að skapa hverfi með borgarbrag, með
fjölbreytni í húsagerð, stórum sameiginlegum inngörðum og iðandi mannlífi.

Nýjar fjölskylduíbúðir í Hafnarfirði og stúdíóíbúðir við Ásbrú

Einnig eru að koma til afhendingar 47 íbúðir við Einivelli í Hafnarfirði. Um er
að ræða góðar fjölskylduíbúðir í barnvænu og vinsælu hverfi. Þá verður framhald
á verkefni sem hófst í fyrra að breyta setustofum í fasteignum Heimavalla á
Ásbrú í stúdíóíbúðir. Í fyrra var 51 íbúð standsett en gert er ráð fyrir að
þetta verkefni muni skila félaginu 36 nýjum stúdíóíbúðum til viðbótar næsta
sumar.

Morgunverðarfundur 15. febrúar: "Ný hugsun á húsnæðismarkaði"

Heimavellir standa fyrir morgunverðarfundi kl 09:00-10:45 fimmtudaginn 15.
febrúar nk. á Hilton Nordica við Suðurlandsbraut. Yfirskrift fundarins er "Ný
hugsun á húsnæðismarkaði" og þar fjallar sænski hagfræðingurinn Anders Olshov
frá Intelligence Watch um þróun húsaleigumarkaðar í Danmörku og Svíþjóð, Ásgeir
Jónsson hagfræðingur og dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands fjallar um
stöðu og horfur á íbúða- og leigumarkaði á Íslandi, og Guðbrandur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Heimavalla segir frá sýn Heimavalla á leigumarkaðinn á Íslandi.
Fundarstjóri er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka
atvinnulífsins. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Morgunverður verður í
boði frá kl. 8:30.

Frekari upplýsingar veitir:

Guðbrandur Sigurðsson
Framkvæmdastjóri

gudbrandur@heimavellir.is
Sími 517 3440, GSM 896 0122Nánar um Heimavelli

Heimavellir leigufélag býður fjölbreytt úrval leiguíbúða fyrir einstaklinga og
fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land. Áhersla er lögð á örugga
langtímaleigu, góða þjónustu og hagstætt verð. Félagið byggir á gömlum grunni en
uppbygging þess hefur fyrst og fremst falist í sameiningu starfandi leigufélaga.
Stefnt er að skráningu Heimavalla á hlutabréfamarkað um mánaðamótin mars/apríl
2018. Gert er ráð fyrir því að félagið verði við skráningu stærsta leigufélag
landsins á almennum markaði með ríflega tvö þúsund leiguíbúðir í rekstri á
höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum,
Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.


Heimavellir hf. ársreikningur 2017 undirritaður: 
http://hugin.info/173425/R/2168273/834852.pdfThis announcement is distributed by Nasdaq Corporate Solutions on behalf of Nasdaq Corporate Solutions clients.
The issuer of this announcement warrants that they are solely responsible for the content, accuracy and originality of the information contained therein.
 
Source: Heimavellir hf. via GlobeNewswire